07.08.1914
Neðri deild: 37. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1074 í B-deild Alþingistíðinda. (1082)

74. mál, land til stækkunar á kirkjugarðinum í Reykjavík

Guðm. Hannesson:

Eg hafði ekki við fyrri umr. þessa máls athugað málið neitt verulega, en treysti því, að nefndin hefði gert það. Síðan hefi eg virt málið fyrir mér, og vildi gera nokkrar athugasemdir við það, áður en deildin afgreiddi málið, og finst mér ástæða til að halda, að ef hv. deild vill hlusta á mig, þá geti hún með góðri samvizku felt þetta frv.

Aðalástæðan fyrir þessu frumvarpi var sú, að nefndin hélt því fram, að kirkjugarðurinn hér í bænum væri of lítill. En sannleikurinn er sá, að kirkjugarðurinn er nógu stór. Stærð kirkjugarðsins, eftir því sem séð verður á uppdrætti Reykjavíkur, er 16 Þús. ? metra. Sé gert ráð fyrir, að grafið sé aftur á sama stað með því millibili, sem talið er nægja í öðrum löndum, sem eru 25 ár, þá koma 240 ? metrar á hvert ár. Geri maður ráð fyrir þessu, og að íbúar bæjarins fjölgi ekki mikið, þá er þetta nægilegt, þótt ætlast væri til þess, að sæmilegar götur lægi um allan garðinn, hvað þá heldur ef grafin er gröf við gröf, eins og hér tíðkast.

Því er haldið fram, að þörf sé á frumvarpinu, vegna þess, að kirkjugarðurinn sé því nær uppgrafinn. En hví þarf hér stöðugt að grafa í nýja jörð? Það er föst regla í bæjum erlendis, að nota kirkjugarðana sem bezt; í sveitum er það síður, þar sem oftast er nóg land.

Eg hefi skrifað upp til athugunar, hvað tíðkast í þessum efnum víða annarstaðar. Skemstur tími þangað til grafið er aftur í grafir, er 7 ár. Auðvitað veltur á ýmsu hjá ýmsum þjóðum; í heitari löndunum rotna líkin fyrr og því má fyrr grafa aftur þar. Víða eru og ofnar í líkhúsum kirkjugarðanna og þar jafnan brendur gröftur. Í Englandi er grafið aftur í gröf, þegar 14 ár eru liðin frá því að hún var tekin, í Saxlandi 20, Baden 21, en þar sem allra lengst er látið líða á milli, er tíminn 40 ár og styðst sá tími fremur við það, að það er landsvenja, en að það sé nauðsynlegt. Þessi kirkjugarður hér er um 70 ára gamall, og er þá um tvöfalt lengri tími látinn líða hér fram yfir það, sem allralengst þykir þurfa annarstaðar.

Nú má spyrja, hvernig fara eigi um minnismerki á gröfum dáinna. Ytra er borgað legkaup og girt um gröfina þangað til aftur er leyfilegt að grafa í hana og er það þá gert eða bletturinn keyptur aftur.

Mér sýnist nú, sem svo mikið land sé enn ógrafið í kirkjugarðinum, að þetta mál þoli bið, auk þess sem nóg svæði er, sem grafa má í aftur.

Mér er sagt, að lík rotni hér seint; eg veit ekki, við hvað það styðst, engi sönnun liggur fyrir um það.

Það er annars undarlegt, að kirkjan hér og kirkjugarðurinn skuli þurfa að vera ómagar landssjóðsins fremur öðrum kirkjum á landinu. Það er ekkert smáræði sem þingið hefir veitt til kirkjunnar hér, nú um undanfarin ár. 1904 eru veittar 7 þúsund kr., 1905 5 þús. kr., 1913 20 þús. kr. lánveiting og nú liggur fyrir brtill., sem raunar er tekin aftur, um að veita 46 þús. kr. til stækkunar kirkjugarðinum hér.

Það er vert að hugleiða það, að á dagskrá þessa þings er stjórnarskrárbreyting, sem líklega verður samþykt, þar sem heimilað er með einföldum lögum að aðskilja ríki frá kirkju. Nú er næsta undarlegt að fara að veita stórfé úr landssjóði til jarðeignakaupa handa kirkjum, þegar einmitt búast má við, að ekki líði langt áður ríkið verður losað við kirkjuna.

Að öðru leyti vil eg ekki lengja framar umræðurnar um þetta, en benda vil eg á það, að mér þykir undarlegt það ákvæði frumvarpsins, að legkaup fyrir fullorðna menn skuli vera að eins 4 kr., en bletturinn, sem fer í fullorðins manns gröf, sem er 4 fermetrar, kostar landið 9 kr., ef alinin kostar 1 kr.