07.08.1914
Neðri deild: 37. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1076 í B-deild Alþingistíðinda. (1083)

74. mál, land til stækkunar á kirkjugarðinum í Reykjavík

Framsögum. (Sveinn Björnsson):

Háttv. þm. Húnv. (G. H.) Segir, að kirkjugarðurinn hér í Reykjavík sé nægilega stór enn. Eg vil geta þess, að nefndin hafði sínar upplýsingar frá stjórnarráðinu og sóknarnefndinni hér, sem ætla má, að kunnugust sé þessu máli. Enn fremur hafði nefndin tal af manni þeim, er hefir á hendi daglega umsjón með kirkjugarðinum, og skal eg leyfa mér að endurtaka þau orð hans, að með sama manndauða, sem verið hefir að undanförnu, mundi garðurinn endast fram á haust, eða í hæsta lagi fram undir nýár. Þessi umsjónarmaður garðsins fer um hann daglega og hefir eftirtekt með gröfunum, og vil eg byggja talsvert á ummælum hana fyrir mitt leyti.

Mér skildist svo á háttv. þm. Húnv. (G. H.), sem hann héldi, að aldrei væri hér grafið ofan í sömu gröf. Þetta er misskilningur hjá háttv. þingmanni. Það hefir verið gert, og hefir það komið í ljós, að lík rotna hér mjög seint, t. d. var fyrir nokkrum árum grafið ofan í fyrstu gröfina, sem tekin var hér í kirkjugarðinum, og var þá kistan enn ófúin og silfurskjöldurinn á henni óskaddaður.

Það getur vel verið, að í öðrum löndum megi grafa fyrr aftur í grafir, en hér er víst, að lík rotna mjög seint; má vel vera, að það stafi af jarðveginum að einhverju leyti, svo að þess vegna fúni hér kistur síður en í öðrum löndum; kemur þá hér einn örðugleiki, sem hv. þm. Húnv. (G. H.) gat ekki um í upplestri sínum áðan.

Eg fyrir mitt leyti trúi stjórnarráðinu, sóknarnefndinni og umsjónarmanni kirkjugarðsina í þessu máli. En eg vil benda háttv. 1. þingm. Húnv. á það, að hér er að einu um heimildarlög að ræða. Eg efast ekki um, að ef háttv. þingm. getur sannað stjórninni, að nóg land sé enn í kirkjugarðinum, þá mun stjórnin ekki nota þessa heimild. En eg verð að halda því fram, að sönnunarbyrðin hvíli enn á háttv. þm. Húnv.

Það getur verið, að kirkjan hér og kirkjugarðurinn hafi verið ómagar landssjóðs, en svo er um fleiri kirkjur hér á landi. Að því leyti vil eg taka það fram, að nefndin hefir viljað fara mjög varlega og ekki viljað ráða til að kaupa stórt landflæmi, enda haft á bak við eyrað, að komið yrði upp líkbrenslu hér, eins og stjórninni hefir þegar verið falið að athuga.