17.07.1914
Neðri deild: 14. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1090 í B-deild Alþingistíðinda. (1097)

28. mál, fækkun sýslumannsembæta

Eggert Pálsson:

Eg skal ekki verða langorður. Það er þegar orðið fáment á bekkjunum, og þeir orðnir órólegir, sem eftir eru.

Mér þykir það engin furða, þó að þessi till. sé fram komin. Fyrir nokkur síðan var grein um þetta mál í merku mánaðarriti, Eimreiðinni, og auk þess hefir ekki svo lítið verið um það talað úti á meðal þjóðarinnar. Eg álít því að það sé til góðs, að málið sé einnig rætt hér og að stjórninni gefist kostur á að athuga það. — En hinsvegar verð eg að líta svo á, að ef árangurinn verður ekki meiri en háttv. flutn.m. (G. H.) virtist gera ráð fyrir, að embætti væri sameinuð aðeins á tveim stöðum, þá getur ekki verið um mikinn fjársparnað að ræða, auk þess sem mér er það ljóst, að á þessum tveimur svæðum, sem nefnd hafa verið, hlýtur það að valda ekki svo litlum óþægindum fyrir þá, sem hlut eiga að máli. En jafnframt og það sem óþægindum fyrir hlutaðeigandi héraðsbúa, hlýtur það einnig að skapa óþægindi fyrir veitingarvaldið, sem vart getur talist ómaksins vert, sé ekki nema um samsteypu tveggja sýslumannsembætta að ræða. Því til þess að koma samsteypunni á, verður veitingarvaldið að veita sýslumanninum, er lengur lifir í hvorum hinna tveggja sýslna, hvort sem það telur hann til þess hæfan eða ekki, hið sameinaða embætti, sem vitanlega yrði þá jafnframt ein bezt launuðu sýslumannsembætti, því að ekki býst eg við, að það geti verið meiningin, að gefa út lög um að sameina tvær sýslur í eitt, án þess að sá maður sem tekur embættið að sér, fái hækkuð laun fyrir stækkaðan verkahring, enda liggur það í augum uppi, að sá sýslumaðurinn í þessum tveimur sýslum, sem lengur lifði, mundi ekki vilja taka að sér báðar sýslurnar, án þess að laun hans væri hækkuð, og að neyða hann til þess vitum vér, að ekki getur komið til mála. Með þessari aðferð, sem háttv. flutn.m. (G. H.) benti á, er það því sýnilegt, að aldrei getur orðið um mikinn sparnað að ræða. Hitt er miklu fremur takandi til greina, að gera stærra stökkið, eins og háttv. þm. Dal. (B. J.) mintist á, og aðskilja umboðsvald og dómsvald og hafa þá dómarana ekki fleiri en svo sem 4–6. Þó að mér dyljist ekki, að þetta mundi valda allmiklum óþægindum, þá yrði dó vinningurinn miklu meiri með þessu móti.

Eg skal svo ekki orðlengja frekar um málið. Eg hefi ekkert á móti því, að till. gangi fram og málinu verði beint til stjórnarinnar; eg geri að minsta kosti ekki ráð fyrir, að það getyi orðið til nokkurs skaða.