21.07.1914
Neðri deild: 17. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1101 í B-deild Alþingistíðinda. (1101)

28. mál, fækkun sýslumannsembæta

Einar Arnórsson:

Þó að umræðurnar um þetta mál sé nú orðnar alllangar, þar sem umræðum hefir verið frestað tvisvar sinnum, vildi eg samt segja nokkur orð. Eg get byrjað á því, að þakka háttv. 2. þm. S.-Múl. (G. E.) fyrir það, sem hann sagði, því að ræða hans í gær var óvenju skynsemdarleg og bar engan keim af kjósendaræðu, heldur talaði hann um málið sjálft, og að með góðri greinargerð. Hann hefir tekið af mér ómakið að segja margt, sem eg hefði viljað segja í þessu máli.

Eg skal þá fyrst drepa á eitt atriði í ræðu háttv. 1. þm. Húnv. (G. H.). Hann hefir misskilið mig viljandi eða óviljandi. Eg hafði sagt í sambandi við þá stefni þingsins, að vilja dengja öllu á stjórnina, að vér gætum ekki búist við að fá neinn Cæsar eða Napoleon í valdasessinn. Meining mín með þessu var ekki sú, að eg áliti, að þessi káktillaga háttv. 1. þm Húnv. (G. H.) væri nokkrum manni ofurefli að athuga. Eg átti aðeins við þessa skoðun þingsins, að stjórnin gæti gert alla skapaða hluti.

Þá kem eg að tillögu háttv. 1. þm. Húnv. (G. H.) og brtill. þeirri, sem háttv. samþingismaður minn (S. S.) og háttv. 2. þm. N.-M. (J. J.) hafa borið fram við hana. Eins og eg sagði áðan, var tillagan, eins og hún kom upphaflega fram, kák eitt, svo að nú er meiri mergur í henni. Nú felur hún í sér mikilsvert og vandasamt þjóðfélagsmál. Þessi brtill. fer í þá átt, að skipa stjórninni að rannsaka, hvort unt sé að aðskilja umboðsvald og dómsvald. Eins og eg hefi áður sagt, hefi eg ekkert á móti tillögunni eins og hún er í sjálfu sér, nema að því leyti að, eg hygg, að það beri engan árandur að vísa svona stórfeldu máli til stjórnarinnar. Það getur varla þýtt annað, en æfinlegan svefn málsins, ef því verður vísað til aðgerða stjórnarinnar. Þinginu fer líkt í þessu efni og sumum skáldunum. Þegar þau eru komin í vandræði með persónur sínar, gera þau sér stundum hægt um vik og drepa þær. Það er svo sem ekki leiðum að líkjast , og líklega er það Henrik Ibsen, sem þingið tekur sér hér til fyrirmyndar. Þegar þingið treystir sér ekki til að ráða fram úr málunum, þá er því næst fyrir hendi að vísa þeim frá sé til stjórnarinn og drepa þau eða svæfa á þann hátt.

Eg skal nú gera grein fyrir, hvað störf þingið ætlast til að stjórnin inni af hendi í næstu framtíð.

Í fyrsta lagi hefir verið samþykt hér í deildinni að skora á stjórnina að taka til athugunar og setja reglur um hlutafélög og jafnframt að taka til yfirskoðunar einn allra vandasamasta kafla hegningarlaganna, 26. kapitulann um svik o. fl. Í öðru lagi er á leiðinni efri deild, að eg ætla, þingsályktunartillaga um, að skora á stjórnina að rannsaka grandgæfilega eftirlaunaspursmálið. Þá er hið þriðja, áskorun um rannsókn á notkun útlendinga á landhelgi landsins. Hið fjórða er símalögin, því að eg ætla, að nefndin muni vísa því máli til stjórnarinnar og ætla henni að undirbúa það til næsta þings. Þá er grasbýlamálið hið fimta. Ætli það verði ekki látið lenda í sömu höfn? (Sigurður Sigurðsson: Líftrygging sjómanna): Já, þá er það. Svo er ótalið hið síðasta hér liggur fyrir í dag. Ef stjórninni er ætlað að gera þetta vel, þá verður hún að láta hendur standa fram úr ermum. Ekki veit eg, hvort til þess er ætlast, að stjórnin ljúkum öllum þessum störfum fyrir næsta alþingi. Svo má loks geta þess, að það eru mörg mál, sem stjórninni þarf að taka til athugunar, enda þótt þingið skori ekki á hana. Eg býst við, að það þurfi nú að rannsaka tollalöggjöf landsins, vörutollslögin þarf að framlengja, eða gera aðrar ráðstafanir um skatta- og tollmál landsins á næsta þingi, og getur undirbúningur þess máls orðið mjög mikið starf. Þegar um slíka tillögu er að ræða sem þá, er hér liggur fyrir , þá getur víst engum blandast hugur um, að það er ekki verk stjórnarinnar aðundirbúa slík stórmál í hendur þingsins. Annarsstaðar eru settar nefndir færustu manna með fullkomna sérþekkingu til að rannsaka og undirbúa slík mál sem þetta. T. d. hafa nefndir starfað í Danmörku mörg ár að rannsókn og undirbúningi réttarfarslaga og dómaskipunar þar í landi, til undirbúnings nýrra refsilega, sjólaga, viðskiftalaga, kirkjulaga o. s. frv. Árangurinn af starfi réttarfarslaganefndarinnar er sá, að nú hefir verið settur mikill lagabálkur um það mál alt, sem að vísu er þó ekki nema á pappírnum ennþá, því að hann hafði í f0r með sér aukna fjárveitingu, sem eg veit ekki, hvort er fengin ennþá.

Í Þýzkalandi hefir það gengið eins; þar hafa verið settar nefndir beztu manna, sem hafa starfað árum saman að undirbúningi borgaralegra laga (Das bürgerliche Gesetzbuch), réttarfarslaga (Prozesordnung) víxillaga, refsilega o. s. frv. Og svona gæti eg lengi rakið?

Eins og háttv. 2. þm. S.-Múl. (G. E.) benti á, mundi afleiðingin af því, að vísa þessu máli til stjórnarinnar, ekki verða önnur en sú, að stjórnin benti þinginu á, hvaða leið það skyldi fara. En þingið ætti ekki að vera svo skyni skroppið, að þurfa að láta stjórnina vísa sér leið. Eg fyrir mitt leyti þekki alls enga aðra leið en þá, sem aðrar mentaþjóðir fara í svona efnum.

Þá skal eg koma að nokkrum atriðum í ræðum þeirra manna, sem hafa talað.

Hátt. samþingismaður minn (S. S.) sagði, að það væri alþjóðarvilji, að embættismönnum yrði fækkað. Þetta er rétt að sumu leyti, en að sumu leyti rangt. Menn vilja yfirleitt fækka embættismönnum — nema hjá sjálfum sér. Þar geta þeir ekki án þeirra verið. Hann virtist þeirrar skoðunar, að þjóðarviljinn hefði aðallega lagst á sýslumennina. En sé varhugavert að fækka nokkrum embættismönnum, eins og skipulagið á umboðsstjórninni nú er, þá eru það sýslumennirnir. Eg þori að fullyrða það, að næst læknum getum vér langsízt án þeirra verið, eins og nú hagar til. Þeir innheimta hér um bil allar tekjur landssjóðs, með tiltölulega litlum kostnaði. Það, sem þeir innheimta, mun nú nema hér um bil 1,700,000 kr. árlega. Kostnaðurinn við þá innheimtu er í flestum tilfellum 2% nokkrum 3% og í einstaka tilfelli hærra. Aftur á móti eru innheimtulaunin stundum engin, svo sem um ábúðar- og lausafjárskatt og húsaskatt. Þótt innheimtulaunin sé reiknuð að meðaltali 2%, þá mun það vera hinn lægsti innheimtukostnaður í víðri veröld. Eg hefi lesið það í fræðibókum, að þessi kostnaður nemi í öðrum löndum ca. 10% og sumstaðar talsvert meira. Háttv. 1. þingm. Húnv. (G. H.) talaði í fyrri ræðu sinni um þjóðlygar. Ein af þessum þjóðlygum er sú, að embættisgjöld og sýslana sé yfirleitt að tiltölu hærri hér á landi en erlendis. Þetta er hin mesta fjarstæða. Hér koma 6–7 kr. af embættislaunum á hvert höfuð, í Danmörku eru það yfir 20 kr., og þar sem herkostnaður er mestu, mun það vera miklu hærra.

Þá skal eg víkja aðalefninu. Eg ætla að skýra, hvað felst í breytingatillögu hinna róttæku eða »radicölu« manna, háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) og háttv. 2. þm. N.-M. (J. J.) Það er enginn vafi á því, að það er samkvæmt anda stjórnarskrárinnar, að dómsvaldið og umboðsvaldið sé hvort öðru sem óháðast. Og frá því sjónarmiði er þessi tillaga til bóta, en þó því aðeins, að hægt sé að koma henni í framkvæmd án mikilla óþæginda. Það leikur heldur ekki vafi á því, að með þessu móti væri hægt að skipa dómaraembættin hæfari mönnum. Það mætti gera harðari kröfur til þeirra, og þeir mundu rækja dómarastörfin betur en nú, þegar þau verða að sitja á hakanum vegna argsamra og umsvifamikilla umboðsstarfa. Dómararnir yrði lausir við arg og þvarg það, sem sýslumenn verða nú að hafa. Það er ekki gott að gera sér nákvæma grein fyrir því, hvort þessi aðgreining aumboðsvalds og dómsvalds hafi aukinn eða minkaðan kostnað í för með þér. Eg býst ekki við, að komist verði af með færri en 4 héraðsdómara, sæmilega launaða. Kaup þeirra mætti ekki vera minna en 4000 kr. og 1–2000 kr. í ferðakostnað. Þessi breyting hlyti óhjákvæmilega að hafa í för með sér algerða breyting á réttarfarslöggjöf vorri. Því hefir líka verið hreyft, að rétt væri að breyta meðferð sakamála og koma á munnlegum málflutning. Þessum breytingum býst eg við að yrði að koma á í sambandi við þetta. Munnlegur málflutningur mundi gera það að verkum, að málin drægist minna en nú á sér stað, og frestir yrði allir styttri en títt er nú.

Verði umboðsstörfin tekin af sýslumönnum, verður þeim trauðla komið fyrir á annan hátt en þann, að setja nýja menn á afmörkuðum sviðum til þess að hafa þau með höndum, einskonar »Centralumboðsmann«. Þessir menn þyrfti líklega ekki að vera eins margir og sýslumenn eru nú, en eg býst þó ekki við, að komist verði af með færri en 14–15. Laun þeirra þyrfti ef til vill ekki að vera eins há og laun sýslumanna, en þar verður þó mjótt á mununum. Menn geta af þessum orðum mínum séð, að þessi breyting verður ekki til sparnaðarauka — eg er hræddur um, að þetta nýja fyrirkomulag verði heldur dýrara. Hver sýsla hefir nú aðskilinn fjárhag og er því þörf á aðalumboðsmönnum þar. Þar með er ekki sagt, að ekki megi sameina tvö sýslufélög undir einum manni, einsog líka nú á sér stað, t. d. með Gullbringu- og Kjósarsýslu, og Ísafjörð, Norður-Ísafjarðarsýslu og Vestur-Ísafjarðarsýslu.

Líka er þess að gæta hér, að í Ed er komið fram frumv. um afnám eftirlauna. Það ætti heima í sama »númeri« og þessi tillaga og ætti þau að fylgjast að. Skal eg svo ekki orðlengja þetta meira. Eg get gjarnan gert flutningsmönnum breyt.till. þann greiða, að greiða atkvæði með henni, en eg álít gagnslausa þá leið, sem fara á, að vísa málinu til stjórnarinnar, þvíað stjórnin getur ekkert gert að marki í þessu máli.