21.07.1914
Neðri deild: 17. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1112 í B-deild Alþingistíðinda. (1104)

28. mál, fækkun sýslumannsembæta

Sigurður Sigurðsson:

Eg hefi í sjálfu sér fáu eða engu að svara. Hinsvegar er eg þakklátur þeim hv. þm., sem lagt hafa gott til málsins og stutt brt. okkar.

Það er enginn vafi á því, að hv. 2. þm. S.-Múl. (G. E.), og hv. samþingism. minn (E. A.) hafa lagt mestan skerf til þess, að upplýsa málið hér í deildinni, enda eru þeir báðir svo settir, að þeim ætti að vera manna bezt trúandi til embættismenn. Það er nokkuð til í þessu. En þessar óskir klingja þó allsstaðar, og áskoranir hafa jafnvel borist til þingsins frá mörgum þingmálafundum, um, að það gjöri eitthvað í þessu máli. Tillögur í þessa átt, sem breytingartillagan stefnir að, hafa ekki verið samþyktar hér í þingi áður. En hitt er satt, að einn og annar hefir minst á það hér áður, að ef ætti að fækka embættismönnum, þá mundi ráðlegast að fækka sýslumönnum á þann hátt, að aðskilja dómavaldið frá umboðsvaldinu. Ef það reynist nú ókleift, og það kemur í ljós, að það verður kostnaðarmeira, þá vandast málið. Hvað á þá að gera? Sumir segja: fækka prestunum. Eg held að það verði erfitt. Þeim var nú nokkuð fækkað með prestakallalögunum frá 1907. En hvað skeður? Síðan hafa komið á hverju þingi áskoranir um það, að fá þau prestaköll upp aftur, sem þá vóru lögð niður. Eg held, að það sé ekki til neins að eiga við prestana.

Það eina skynsamlega. sem vér gætum gjört í því tilliti, væri það, að skilja ríki og kirkju. þegar stjórnarskrárbreytingin er gengin í gildi. Þá er hver sjálfráður, hve mikið hann vill leggja á sig í þarfir kirkju og kristindóms.

Það er nú eins og komið sé við hjartað í mönnum, ef minst er á læknana. Á hverja þingi er beðið um að stofna ný læknishéruð. Hv. 1. þm. Hún. (G. H.) hélt hagfræðislegan fyrirlestur um það, að þeir væri framleiðendur, af því að þeir héldi lífinu í mönnum. (Einar Arnórsson: En hvað drepa þeir marga?). Það er nú stundum, en ekki alténd, að það er hagfræði, að halda lífinu í mönnum. Það fer eftir því, hvað nýtir menn það eru í þjóðfélaginu. Annars munu læknar vera framleiðendur eins og aðrir embættismenn að því leyti, að þeir geta börn, en að öðru leyti ekki. Þeir styðja aðeins að framleiðslunni óbeinlínis, ef þeir hjálpa til þess, að einhverjir, sem fatlast eða veiklast, geti farið að vinna aftur. En ef ekki má fækka læknum, prestum né sýslumönnum, hvað á þá að gjöra? (Einar Arnórsson: Þá eru ráðunautarnir!). Eg gæti spurt vin minn og samþingismann, hvort ekki mundi þá vera eins rétt að bera niður hjá honum við háskólann og reyna, að fækka eitthvað prófessorum og dócentum við þá stofnun.

Yfirleitt held eg að eini færi vegurinn væri sá; að fækka einhverju af þessum ómyndarskólum, sem hanga á horriminni og gjöra ekki hálft það gagn, sem þeir ætti að gjöra og er ætlað að gjöra.

Þá gjörði hv. samþingism. minn þá athugasemd, að þetta væri svo stórt mál, að stj. væri það ekki ætlandi. Það getur nú verið, og ef til vill hefði það verið nærgætnara af okkur, að ætla henni að koma ekki fram með frv. um þetta þegar á næsta þingi, heldur síðar. Það þarf nú ekki að taka það tímatakmark svo bókstaflega, en aðeins vil eg spyrja: Hver á að gjöra þetta, ef ekki stjórnin? (Rödd: Milliþinganefnd ). Já, vér þekkjum nú þessar milliþinganefndir, og síðast fánanefndina. Hver er svo árangurinn af þessum milliþinganefndum? Sáralítill, nema kostnaður fyrir landssjóð.

Líka má hugsa sér að setja fasta nefnd. Það getur verið, að það væri ekki lakara, ef menn setti henni þá stólinn fyrir dyrnar, þannig, að henni væri ekki reiknað kaup fyrir aðra tíma en þá, sem hún verði til að starfa að þessu máli. En eins og kunnugt er, hafa milliþinganefndir oft reiknað sér kaup fyrir allan tímann, sem þær hafa setið, hvort sem þær hafa unnið eða tekið sér frí. En væri líka ekki hugsanlegt, að stjórnin gæti leitað til einstakra manna, og falið þeim að gjöra tillögur um málið? Vér höfum menn við háskólann, sem hafa hæfileika til að gegna meiri störfum, en þarf að vinna, eins og t. d. hv. samþingismaður minn, og enda hv. 1. þm. Hún. (G H.) líka. Eg hefi eins mikla trú á því að leita til þeirra, eins og að kasta út 10 til 20 þús. kr. til nefndar, sem lítið eða ekkert liggur eftir að gagni.

Auðvitað ætlast eg ekki til þess, að þeir gerði þetta fyrir ekki neitt, þótt eg viti, að þeir eru óeigingjarnir menn, en dálítið ódýrara ætti það þó að verða. Stjórninni er innanhandar að leita til einstakra manna, ef hún vill og getur ekki annast málið sjálf, og þess vegna sé eg ekkert á móti því, meðal annars af þessum ástæðum, að samþykkja br.tillöguna.

Eg skal svo ekki segja meira. Eg vænti þess, eftir undirtektunum, að brt. verði samþ.

Eg skal ekki fara hér út í hagfræðishugleiðingar hv. 1. þm. Hún. (G. H.) um það, hverjir vinni mest að framleiðslunni hér í landinu. En það skilst mér, að það verði þeir. sem sjálfir leggja hönd á plóginn, bændur, sjómenn og aðrir verkamenn.