18.07.1914
Neðri deild: 15. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1124 í B-deild Alþingistíðinda. (1115)

46. mál, ráðstafanir gegn útlendingum vegna íslenskrar landhelgi

Magnús Kristjánsson:

Eg skal ekki tefja tímann lengi, ætla aðeins að geta þess, að á þinginu 1905 flutti eg frumv. sama efnis og þessi þingsályktunartillaga. Málið var þá tekið til rækilegrar íhugunar, en þingið komst þá að þeirri niðurstöðu, að ekki væri hægt að girða fyrir það, að útlendingar, sem verkuðu fisk sinn á leið til hafnar eða jafnvel að einhverju leyti inni á höfnum hér við land, færi ekki með aflann án þess að gjalda af honum útflutningsgjald. Eg verð að segja, að mér féll þetta mjög illa þá, og átti mjög örðugt með að átta mig á því, að þingið ekki gæti gert neitt til að koma í veg fyrir þetta; en við því varð ekki gert, úr því meiri hluti þingsins leit svona á málið.

Það hefir viðgengist hér um langan aldur, að Frakkar, sem fiska hér við land, leggja skipum sínum inni á höfnum og afferma í önnur skip, sem svo fara með hann út, án þess að greiða einn eyri í útflutningsgjald.

Þetta sýnist vera æði hart, að útlendingar skuli verða betur úti, en þeir innlendir menn, sem stunda sömu atvinnu. Mér þykir því vænt um, að þessi tillaga er framkomin, ef ske kynni, að þingið sæi sér fremur nú en 1905 fært að ráða einhverja bót á þessu.

Hitt atriðið er um það, hvort útlendingar skuli geta rekið hér atvinnu með þeirri aðferð, sem um er getið í tillögunni, án þess að vera skyldir til að greiða útsvar eða önnur opinber gjöld, og án þess að hafa nokkurt verzlunarleyfi. Það virðist nokkuð hart, en þó held eg, að ekki muni vera hægt að gera þeim þetta að skyldu, ef þeir dvelja ekki 4 mánaða tíma, nema talsverðar breytingar verði gerðar á sveitarstjórnarlögunum.

Eg get um þessa tilraun mína 1905, aðeins til þess, að menn geri sér ekki altof miklar vonir um mikinn árangur af þessari tillögu. Annars lofaði eg að tala stutt, skal aðeins geta þess að sjávarútvegsnefndin ræddi þetta mál rækilega á síðasta þingi, en fann þá enga færa leið út úr þessu.