18.07.1914
Neðri deild: 15. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1125 í B-deild Alþingistíðinda. (1116)

46. mál, ráðstafanir gegn útlendingum vegna íslenskrar landhelgi

Sveinn Björnsson:

Eg skal ekki tala um sjálfa tillöguna, en aðeins geta þess út af ræðu háttv. þm. Ak. (M. Kr.) að mér virðist það vera eðlilegt, að útlendingar, sem reka sömu verzlun inni á höfnum, sem innlendir menn reka í landi, greiði sama gjald og aðrir og trúi því tæplega, að ókleift verði að koma því svo fyrir.

Ástæðan til þessarrar viðaukatillögu á þskj. 134 er sú, að bæði mér og öðrum hefir sárnað að sjá það þegar útlendingar, sérstaklega Frakkar, sem veiða hér allan fiskveiðitíma ársins, frá því í febrúar og til sumarloka, fá til

sín skip, um fiskveiðitímann, sem flytja þeim salt og aðrar nauðsynjar þeirra, en taka aftur við fiskinum, sem þeir hafa veitt hér og flytja hann út til Frakklands, og þetta alt án þess að greiða einn eyri í innflutningsgjald eða útflutningsgjald. En ef vér Íslendingar rekum þessa atvinnu, þá verðum vér að gera svo vel að borga mikið fé í tolla.

Þetta er gert meðal annars til þess að geta saltað fiskinn með frönsku salti, þá fá útgerðarmennirnir 36 franka fyrir hverja smálest af fiski, sem franska ríkið borgar þeim í »præmie«, til þess að standa betur að vígi í samkepninni við oss um fisk sem fiskast hér við land. Eg get ekki furðað mig á því, að Íslendingum svíði það í augum, að þeir þurfa að borga þung gjöld fyrir að reka fiskveiðar sem atvinnu, en ef útlendingar reka sömu atvinnu, þá losna þeir við öll gjöld.

Mér hefir verið sagt, að ekki væri hægt með nokkuru móti að koma því þannig fyrir, að vér legðum gjöld á þessa útlendinga, því að það væri á móti alþjóðareglum. Eg veit, að þetta er ekki algild regla, og eg hefi ekki fundið neitt, sem er því til fyrirstöðu, að vér getum þetta.

Mér hefir ennfremur verið sagt, að á landshöfðingjaárunum hafi farið fram bréfaskriftir um þetta milli landshöfðingjans og Nellemanns og svo utanríkisráðuneytisins, eg hafi utanríkisráðuneytið ekki séð sér fært að heimta þessi gjöld, en aftur hefi eg aldrei heyrt, að þessu máli hafi nokkuru sinni verið hreyft síðan stjórnin fluttist inn í landið.

Ég vona, að viðaukatill. mín geri ekki neitt mein, en vildi með henni skora á stjórnina að taka þetta mál til rækilegrar íhugunar, og rannsaka þetta mál ennþá ítarlegar en áður hefir verið gert.