21.07.1914
Neðri deild: 17. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1128 í B-deild Alþingistíðinda. (1121)

68. mál, útibú frá Landsbankanum á Austurlandi

Flutningsm. (Jón Jónsson):

Þessi tillaga er framkomin af því, að enn er ekki farið að stofna útibú það frá Landsbankanum á Austurlandi, sem ráð var gjört fyrir í bankalögunum frá 1885. Menn eru nú farnir að verða langleitir eftir þessu útibúi, og sætta sig ekki við að fá það ekki, eins og hinir fjórðungarnir, þar sem Austurland á jafnt tilkall til þess og þeir.

Þörfin er mikil hjá oss fyrir peningastofnun. Að vísu er á Seyðisfirði útibú frá Íslandsbanka, en það er allskostar ónóg.

Það er kunnugt, að á Austurlandi er mikil framleiðsla, þar sem búskapur er þar kominn á góðan rekspöl, einkum að því er snertir sauðfjárrækt, auk þess sem sjór er þar stundaður mikið við sjávarsíðuna og verzlun allmikil. Það gefur því að skilja, að þar sem svo mikið verkefni er, þar hlýtur banki að eiga stórt verksvið, og það hefir oft komið sér bagalega, að geta ekki fengið lánsfé eftir þörfum. Einu úrræðin hafa verið þau, að fá peninga hjá verzlununum, þegar ekki næst til bankanna. En það vita allir, hve óeðlilegt það er, að þær haldi enn áfram að vera lánsstofnanir. Það er eins og sýnishorn af gamla fyrirkomulaginu, meðan einokunin var.

Verzlanirnar binda þá við sig með lánum, sem þær þora að lána; hinir fá ekkert, sem ekki þykja líklegir viðskiftamenn, eða lítið eiga undir sér. Og fái menn ekki peninga þar, þá fá þeir þá hvergi, og það horfir ekki til þjóðþrifa, því að peninga þurfum vér að hafa, ef nokkrar athafnir eða framkvæmdir eiga að vera í landinu.

Eg hefi heyrt sagt, að því hafi verið fleygt hér í Rvík, þar sem bankarnir eru, að það sé ekki gott að lána Austfirðingum peninga, af því að þeim sé ekki trúandi fyrir þeim. Eg veit ekki, hvað hæft er í því, en sé slíkt á orði, þá hefir það ekki við annað en skrök að styðjast, og eg hygg, að þar hafi ekki verið frekar pottur brotinn að þessu leyti, en annarsstaðar á landinu. Að minsta kosti er reynsla útibús Ísl.banka þar sú, eftir því sem mér er kunnugt. Því mun nú reyndar vera mjög vel stjórnað, en það er þó ekki eingöngu því að þakka, að vel hefir gengið, heldur líka skilvísi viðskiftamanna þess og gjaldþoli.

Það virðist í alla staði vera sanngjarnt, að farið er fram á þessa beiðni við stjórnina, því að bankinn getur ekki gjört þetta nema með hennar leyfi. Vona eg svo, að hv. deild taki málinu vel, því að það miðar til verulegra framfara fyrir Austfirðingafjórðung, og um leið landið alt.