21.07.1914
Neðri deild: 17. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1129 í B-deild Alþingistíðinda. (1122)

68. mál, útibú frá Landsbankanum á Austurlandi

Matthías Ólafsson:

Á ferð minni um Austfirði í vor sem leið, varð eg þess var, að margir útvegsmenn þar eystra vóru óhæfilega bundnir kaupmönnum, og að það stóð útvegi þeirra mjög fyrir þrifum, hve ósjálfstæðir þeir vóru fjárhagslega.

Mér kom þetta mjög á óvart, því að eg vissi, að talaverður afli var þar, og fór því að leita fyrir mér með það, hvernig á þessu gæti staðið, og sú niðurstaða, sem eg komst að, var sú, að þetta komi alt til af því, að menn gæti ekki fengið lán annarsstaðar en hjá kaupmönnum. Allir, sem eg mintist á þetta við, sögðu, að þeim fyndist bráðnauðsynlegt að fá bankaútibú frá Landsbankanum.

Eg hygg, að það hafi staðið framkvæmdum þessa máls fyrir þrifum, hve Austfirðingar eru sjálfir sundurlyndir í þessu efni. Sumir vilja óðir hafa útibúið á Seyðisfirði, aðrir vilja hvergi hafa það nema á Eskifirði.

Ef eg mætti eitthvað leggja til þeirra mála, þá held eg, að heppilegast væri að hafa það á Seyðisfirði, svo að útibúin sé þar hvort við hliðina á öðru og gæti starfað hvort í sambandi við annað.

En hvað sem öðru líður, þá mega ekki framkvæmdir þessa máls dragast lengur, því að hér er sérstök brýn nauðsyn á að fá bankaútibú.

Eg sé, að hv. þm. S.-Múl. biður um orðið, — líklega til þess að halda fram útibúi á Eskifirði. Vonandi rætist þó sú spá mín ekki, því að slíkt mundi verða málinu til tjóns. Eg vona að hann fallist á það með mér, að heppilegra muni að hafa útibúið á Seyðisfirði.

Eg mun greiða atkvæði með þessari till., og hefði gert það hvenær sem hún hefði komið fram, og því ekki síður nú, er eg sé að sérstök nauðsyn er til að flýta þessu máli.