04.08.1914
Neðri deild: 34. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1144 í B-deild Alþingistíðinda. (1142)

97. mál, líkbrennsla í Reykjavík

Frams.m. (Sveinn Björnsson):

Eg skal vera mjög stuttorður.

Hér lá fyrir til umræðu í gær nefndarálit frá nefndinni, sem þessi háttv. deild kaus til að athuga málið um stækkun kirkjugarðsins í Reykjavík. Eg fékk þá ástæðu til að tala um þetta mál í sambandi við kirkjugarðsstækkunina, því að þau snerta hvort annað.

Þessi tillaga fer í þá átt, að skora á stjórnina að afla sér upplýsinga um það, hvað kosta mundi að koma á líkbrenslu hér í bænum og leggja svo fyrir alþingi næsta frumv. til laga um það mál.

Nefndin var öll á einu máli um það, að hér væri um nauðsynjamál að ræða og að auk þess, sem það hefði aukinn þrifnað í för með sér, þá gæti þetta orðið til mikils sparnaðar fyrir landið, því að það kostar ekki svo lítið fyrir landið að verða að leggja til land undir kirkjugarðinn í hvert sinn, sem þarf að stækka hann.

Eg vænti því þess fastlega, að háttv. deild verði sammála nefndinni um þetta mál og samþykki tillöguna.