17.07.1914
Neðri deild: 14. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 152 í B-deild Alþingistíðinda. (116)

59. mál, atvinna og vélgæsla

Framsögum. (Matthías Ólafsson):

Eg hefi litlu við að bæta umfram það, sem stendur í nefndarálitinu. Það er á tvent að líta í þessu máli. Annars vegar það, að ekki sé skortur á vélstjórum, og hins vegar að þeir, sem útlærðir eru og hafa próf, gangi þó fyrir öðrum. Nefndin gat ekki álitið sanngjarnt, að þeir menn, sem nú eru teknir til vélstjórastarfa með undanþágu, sé alveg réttlausir, svo að þeir verði að víkja þegar aðrir menn koma til, sem lært hafa til starfans á þann hátt, sem lögin ákveða. Hins vegar vill hún gera þeim að skyldu, að afla sér þeirrar þekkingar, sem gildandi lög gera ráð fyrir. Breytingartillögur nefndarinnar bera með sér, hvernig hún hugsar sér að þessu verði fyrirkomið.

Eg hygg, að ekki sé þörf á lengra máli, og vona eg að háttv. deild geti fallist á breyt.till. og samþykt frumvarpið eins og það nú liggur fyrir.