07.08.1914
Neðri deild: 37. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1164 í B-deild Alþingistíðinda. (1176)

70. mál, afnám eftirlauna

Ráðherra (S. E.):

Eg ætla í fáum orðum að lýsa afstöðu minni til þessa máls. Eg er hlyntur því og tel rétt, að kröfur þjóðarinnar um afnám eftirlauna sé teknar til greina. En eg verð að halda því fram, að um leið verði að rannsaka launakjör embættismanna yfirleitt; athuga hvort ástæða gæti verið til að hækka jafnframt laun sumra embættismanna og lækka þá annarra. Í þessu máli verðar að gæta fullrar sanngirni. Og eg trúi því ekki, að það sé gagnstætt vilja þjóðarinnar, að embættismenn hennar sé sæmilega launaðir. Eg álít það óholt, að starfsmenn þjóðfélagsins þurfi að lifa við sultarkjör. Það er nauðsynlegt, að þetta verði ítarlega rannsakað, og eg álít, að það sé ekki rétt að leggja þetta alt í hendur stjórnarinnar. Þjóðin gerir kröfu til, að fleiri en embættismenn rannsaki málið, en í stjórnarráðinu er ekki öðrum en embættismönnum á að skipa. Rannsóknin gæti því orðið of einhliða, auk þess, sem í stjórnarráðinu mundi lítill tími vinnast til slíkra rannsókna. Eg verð því að mæla með því, að milliþinganefnd verði skipuð.

Háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) kvartaði yfir því, að hann hefði ekki fengið svar frá stjórnarráðinu viðvíkjandi fyrirspurn um það, hve mikið ýmsar milliþinganefndir hefði kostað. Eg skil ekki, hvernig á því getur staðið, en eg þori að fullyrða það, að ástæðan er ekki sú, að það hafi ekki viljað svara spurningunni, heldur hlýtur hún að vera sú, að óvenjulega mikið hefir verið að gera þar síðustu dagana. Annars hefði þingmaðurinn ekki þurft annað en að snúa sér beint til mín um þetta efni. Sjálfsagt að veita slíkar upplýsingar.

Eg álít ekki rétt að taka til greina varatillögu háttv. þingm. um það, að nefndarmenn verði 3 í staðinn fyrir 5. Meiri trygging að öðru jöfnu að 5 manna nefnd athugi málið ítarlega frá öllum hliðum, en úr því á annað borð er farið að hreyfa málinu, þá virðist æskilegt, að nefnd sú, sem um það fjallar, gæti haft fult traust landsmanna og færi vel, ef hún gæti eytt þeim kala, sem jafnan hefir staðið af þessum launamálum.

Eg vil loks taka það fram, sem eg vék að í byrjun máls míns, að eg held, að það hefni sín fyrir hverja þjóð að launa starfsmönnum sínum svo illa, að þeir hafi ekki ráð á að gegna starfi sínu, eins og eg held líka, að hitt hefni sín, að hafa starfsmennina fleiri en nauðsyn krefur.