07.08.1914
Neðri deild: 37. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1179 í B-deild Alþingistíðinda. (1182)

70. mál, afnám eftirlauna

Ráðherra (S. E.):

Eg gat þess áðan, að það væri ekki heppilegt, að embættismenn landsins hefði of lítil laun. Þetta stend eg fast við. Mér finst það óheppilegur sparnaður, sem gengur í þá átt að gera launin svo lítil, að embættismennirnir geti ekki notað krafta sína í þarfir þjóðfélagsins.

Eg ætla ekki að fara að tala um embættisstofnun þá, sem talað var um hér nýlega; eg skal lýsa yfir því, að eg er hlyntur háskóla Íslands og vil gera veg hans sem mestan. Fyrir mér er þetta þjóðarmetnaður.

Það er leiðinlegt um jafnstiltan mann og háttv. 1. þm. Árn. (S. S.), hvað honum hættir við að verða æstum, þegar minst er á embættisbræður hans í þessu landi. Hann hefir ekki tekið eftir því, að þessar skammir hans til embættismannanna bergmála ekki hjá þjóðinni. Þjóðin hefir fullan skilning á því, að hún geti ekki fremur en aðrar þjóðir verið án embættismanna og því engin ástæða að hafa þá stétt fremur en aðrar að skotskífu; hitt er annað mál, að sjálfsagt er að láta þá embætttismenn sæta aðfinslum, sem aðfinslur eiga skilið. Eg vil benda háttv. þm. á, að það er óhæfileg stefna að reyna að koma inn kala milli stéttanna í landinu, milli embættismannanna og alþýðunnar. Bótin er, að þeir sem gala hæst um þetta vinna ekkert á.

Eg stend fast við það, að það er ekki heppilegt að láta stjórnina rannsaka þetta launamál. Stjórnarráðið er ein. göngu skipað embættismönnum og þess vegna hætt við, að rannsóknin verði nokkuð einhliða. Eg fyrir mitt leyti lít svo á, að heppilegast væri, að meiri hluti nefndarinnar, sem skipuð verður til þess að rannsaka þetta mál, verði bændur. Það sjá líka allir, að stjórnarráðið hefir engan tíma til að rannsaka jafnumfangsmikið mál eins og þetta.

Háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) hélt því fram, að þetta mundi leiða til þess, að útgjöld landssjóðs hækkuðu. Það getur verið, en er ekki víst. Það getur verið, að laun sumra embættismanna yrði lækkuð, en hækkað yrði aftur hjá öðrum. Eg vil benda á, að læknar í afskektum héruðum ætti að hafa hærri laun en læknar í góðum héröðum, annars afleiðingin sú, að læknar í útkjálkahéröðunum verða oft af verri endanum, en það tel eg mjög óheppilegt.

Mér fanst háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) líta svo á, að milliþinganefndir væri vanar að slæpast og gera ekki neitt. Eg skil ekki, á hverju hann byggir það álit sitt.

Eg treysti því fastlega, að þessi hv. deild samþykki ekki breytingartillögur háttv. 1. þm. Árn., því að það gæti orðið til þess, að koma í veg fyrir, að eftirlaun embættismanna verði afnumin.

Að vísu álít eg tillögu þingm. um, að 3 menn skipi nefndina, ekki jafnathugaverða, en held þó, að betra væri að skipa 5 manna nefnd.