12.08.1914
Neðri deild: 44. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1196 í B-deild Alþingistíðinda. (1192)

129. mál, afleiðingar harðræðis

Skúli Thoroddsen:

Eg vil styðja tillögu þessa, en get þó ekki varist þess, að benda á, hvort hér er eigi í raun og veru verið að bjóða steina fyrir brauð.

Tillagan fer fram á það, að heimila stjórninni að verja til lánveitinga, til að bæta úr harðindunum á nýliðnu vori, 50 þús. kr. af ½ milj. kr. láninu, sem henni var heimilað að taka, sbr. lögin frá 1. ágúst þ. á. En fari nú svo, að stjórnin fái ekkert lán, þá verður tillagan aðeins til þess, að vekja hjá mönnum vonir — vonir, sem ekki geta ræzt.

Annars vil eg í þessu sambandi benda á, að mér finst þingið ætla að skilja mjög illa við. Það er ekki ólíklegt, að svo geti farið, að í október eða nóvember þ. á. verði svo komið, að stjórnin standi uppi ráðalaus með tvær hendur tómar, geti jafnvel ekki greitt embættismönnum laun þeirra, þar sem tekjulindir landssjóðsins hljóta að teppast að mun, vegna ófriðarins — aðflutningur og útflutningur að minka, ef eigi alveg hverfa.

Að vísu má svara mér því, að nýskeð hafi nú verið kosin nefnd, sem panti vörur handa landsmönnum, og að af þeim komi þó tekjur í landssjóðinn. En aðgætandi er, að landið verður sjálft að borga tollinn fyrst í stað, og ekki víst, að kaupmenn fáist til þess að kaupa vörurnar af landsstjórninni, eða sjái sér hag í því, þar sem þær hljóta — vegna ófriðarins o. fl. — að verða mjög dýrar, og almenningur mun og skirrast við að kaupa þær í lengstu lög.

Það sem þurft hefði að gera, í stað þess er háttv. efri deild feldi lögin um seðlaaukning fyrir Íslandsbanka, var það, að gefa bæði Landsbankanum og Íslandsbanka rétt til, að gefa út 1–2 milj. kr. á seðlum, til þess að bæta úr peningavandræðunum í landinu meðan norðurálfuófriðurinn stendur yfir.

Mér sýnist annars alt stefna að því, að hér fari alt í vitleysu, og þingmenn hlaupi hver heim til sín, látandi alt reka á reiðanum.

Eg öfunda ekki stjórnina af að standa í þeim sporum, sem allar líkur eru til að hún verði að standa í, eins og viðskilnaður þingsins virðist ætla að verða, og ætti hún því að nota þingið sem bezt þessa síðustu dagana og lengja það fremur, sem þörf gerist.