12.08.1914
Neðri deild: 44. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1197 í B-deild Alþingistíðinda. (1193)

129. mál, afleiðingar harðræðis

Hannes Hafstein:

Eg er háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) samdóma um það, að stjórnin geti ekki fengið lán í útlöndum um þessar mundir, en þar á móti geti hún fengið lán hjá bönkunum hér, og ef á þarf að halda 400–500 þús. kr. af gullforða Íslandsbanka, samkvæmt lögunum í sumar. (Skúli Thoroddsen: Því fé verður að skila um miðjan oktober.) Já, en stjórnin getur altaf gefið út bráðabirgðalög um framlengingu á þeim lögum. (Skúli Thoroddsen: Ef þá næst til konungsins.) Eg býst við því, að landsstjórnin verði að halda því fé, sem hún getur fengið, handbæru til að kaupa korn og aðrar nauðsynjavörur fyrir, en megi ekki binda það í útlánum. Korn og nauðsynjavörur verða því væntanlega hið eina, sem stjórnin getur lánað út. Mér finst, að þessa heimild, sem hér er um að ræða. megi skilja svo, að stjórnin geti lánað af matvörubirgðum, er hún kaupir, þeim sveitafélögum, sem verst hafa orðið úti í vor, og að ekki þyrfti að greiða andvirði þeirrar matvöru á annan hátt en venjuleg landssjóðslán. Eg álít, að hreppunum geti orðið þetta að góðu gagni og hagræði, en það má ekki vekja neinar vonir um, að þeir fái peningalán úr landssjóði, allra sízt eftir aðfarir efri deildar í bankamálinu í gær.