12.08.1914
Neðri deild: 44. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1200 í B-deild Alþingistíðinda. (1196)

129. mál, afleiðingar harðræðis

Eggert Pálsson:

Eg tek undir það, að hér er um mjög þýðingarmikið mál að ræða. Öllum er kunnugt, hvílíkan stórhnekki bændur á Suðurlandsundirlendinu hafa beðið í ár, og má búast við, að enn meira tjón standi fyrir dyrum, af afleiðingum Norðurálfuófriðarins. Það er rétt og skylt að reyna að bæta sem bezt úr þessu, en mér virðist þó mjög erfitt til verulegra framkvæmda, og það því fremur, sem þetta mál kemur fram á allra síðustu stundu. Þó að þetta aukaþing hafi setið lengi, 6 vikur fullar, þá hefir það þó leyst tiltölulega lítið af höndum, — að minsta kosti framan af, — unz það nú flaustrar af mörgum málum í hálfgerðri vitleysu og athugaleysi. Þessi till. hefði gjarnan mátt koma fram fyrr.

Eg verð að taka í sama streng og hv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) að hér eru nú alls ekki góðar horfur. Margt þrengir að í senn, og svo er þingið til neytt að hlaupa frá öllu saman.

Eg get ekki séð, hvernig stjórnin fer að ráða fram úr þeim peningavandræðum, sem nú eru fyrir dyrum. Henni er falið að taka hálfrar milj. kr. lán, en það fæst vitanlega ekki frá útlöndum, og heimafyrir verður því erfiðara að fá það, sem frv. um aukna Seðlaútgáfu Íslandsbanka var felt í Ed. í gær. Stjórnin hefir því sýnilega ekkert til að grípa nema gullforða Íslandsbanka. Eg tel það samt ekki viðeigandi að greiða atkvæði á móti tillögunni, ef hægt yrði með einhverju móti að fá féð. Mér lízt því bezt á þau úrræði, sem hv. 1. þm. Eyf. (H. H.) stakk upp á, að lána sveitunum matarforða af kornforða þeim, sem til stendur að stjórnin fái frá Ameríku, sem svarar þessari upphæð, því að slíkur styrkur hlýtur undir þeim kringumstæðum, sem nú eru, að koma að jafngóðum notum sem beint peningalán.