12.08.1914
Neðri deild: 44. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1201 í B-deild Alþingistíðinda. (1197)

129. mál, afleiðingar harðræðis

Einar Jónsson:

Eg býst alls ekki við, að menn hafi gert sér grein fyrir þeim voðaafleiðingum, sem harðindin höfðu í vor. En ef menn hafa gert það, þá hljóta þeir að vera till. hlyntir. Þegar þess er gætt, hvað óþurkarnir vóru miklir í fyrra, en vorið hart nú, þá held eg, að hér sé farið fram á alt of litla upphæð, þó að eg voni, að mitt kjördæmi þurfi ekki á einum eyri að halda. Eg veit, að önnur kjördæmi þurfa á mikilli hjálp og aðhlynningu að halda, og það er sjálfsagt að styrkja þau. Eg býst við, að það verði ekki nema fá kjördæmi, sem leita þessa atyrks, því að horfurnar eru nú altaf að batna vegna tíðarfarsins, — en það er reyndar ekki nóg fyrir þá sem hafa mist fénað sinn, og standa nú uppi móðlausir og farlama. Það eru þessir menn, sem þarf að styrkja, og bjarga þeim frá að missa móðinn, þegar þeir standa uppi með tvær hendur tómar og svangar konur og börn. Hér er um styrk að ræða, en alls ekki gjöf eða hallærislán. Mér finst aðeins upphæðin heldur lítil, og væri því samþykkur að færa hana upp um helming, en játa þó, að þetta er spor í rétta átt.