11.08.1914
Neðri deild: 41. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1205 í B-deild Alþingistíðinda. (1206)

121. mál, uppburður sérmála Íslands

Skúli Thoroddsen:

Af því að eg er formaður stjórnarskrárnefndarinnar, skal eg láta þess getið, út af ávítum hv. þm. N.-Þing. (B. Sv.) í garð nefndarinnar, fyrir það, hve seint hún hafi lokið störfum sínum, að nefndin verður eigi réttilega sökuð um dráttinn, því að eins og hv. þm. N.-Þing. (B. Sv.) og öðrum, er til sama flokks teljast, sem vér, er kunnugt um, varð það að samkomulagi í flokknum, að fresta öllum aðgerðum nefndarinnar á málinu, unz ráðherrann kæmi heim aftur úr förinni á konungsfund. Þetta var þá og gert, því að nefndin vildi, ef unt væri, fá vitneskju um, hvers vænta mætti af konungsvaldinu, að því er til staðfestingar stjórnarskrárfrumvarpsins kemur, ef samþykt væri mótmæli gegn opna bréfinu frá 20. okt. síðastl., sem og gegn ýmsu, er gerðist á ríkisráðsfundinum téðan dag.

Geta má þess og ennfremur, að meðan að ráðherrann var erlendis, eða um það leyti, er hann lagði af stað þaðan hingað heimleiðis, barst sjálfstæðisflokknum símskeyti frá ráðherranum, þar sem þess var og óskað, að frestað væri aðgjörðum öllum, unz hann kæmi heim, og eftir hljóðan þess taldi flokkurinn og meiri hluti nefndarinnar, sér þá og enn skyldara en ella, að eiga alls ekkert við málið fyrr en ráðherrann kæmi.

Þegar ráðherrann var heim kominn, gaf hann flokknum síðan skýrslu um för sína á konungsfund, og að því loknu gat nefndin þá fyrst verulega farið að sinna málinu.

Að lokum, þ. e. þegar svo langt var komið, að ekki vissu vér nefndarmennirnir betur, en að vér gætum allir, sem í nefndinni erum, orðið nokkurnveginn sammála, án tillits til flokka, fór svo á síðastu stundu, að svo gat þó ekki orðið. Olli það þá enn tveggja til þriggja daga töf.

Þetta eru þá ástæðurnar til þess, að málið varð eigi fyrr útkljáð í nefndinni en raun er á orðin.

Að því er snertir þingaályktunartill., sem borin er fram af meiri hluta stjórnarskrárnefndarinnar, og hér er til umræðu, þá mun eg á sínum tíma greiða henni atkvæði mitt, þó að eg að vísu sé henni ekki fyllilega samþykkur.

Byrjun tillögunnar er ekki eins ákveðin að orðalagi, eins og eg hefði viljað vera láta. En það var skoðun manna í nefndinni, að það væri »diplomatiskara« eða vænlegra til sigurs, að hafa orðalagið eins og gert er, enda skiftir það mestu, ef ekki öllu, í þessu máli, hvernig hæstv. ráðherra ber málið upp fyrir konungi og gengur frá því þar.

Fyrir mitt leyti hefði eg talið bezt, að konungur gæfi út nýtt, opið bréf, er úr gildi næmi opna bréfið frá frá 20. okt. 1913, eða það væri þá upphafið með konungsúrskurðinum, sem gert er ráð fyrir að fylgi staðfestingu stjórnarskrárinnar, og ætti þá og jafnframt að skírskota til þingsályktunartillögunnar, sem nú verður væntanlega samþykt.

En þó að eg líti nú þannig á málið, að ekki sé eins tryggilega frá öllu gengið — orðalagið í byrjuninni eigi svo ákveðið — eins og æskilegt hefði verið, þá tel eg rétti landsins þó hinsvegar vel borgið, og hann á engan hátt skertan, ef samþykt er tillaga meiri hl. nefndarinnar, og svo hagað til, sem eg hefi nú bent á.

Ennfremur hefði eg og talið heppilegast, að í væntanlegum konungsúrskurði væri sögð saga málsins: að skýrt væri frá, hvað vakað hefði fyrir alþingi þegar það tók »ríkisráðsákvæðið« út úr stjórnarskránni, þ. e., að þingið hefði á þann hátt viljað slá því föstu, eða leggja áherzlu á það, að um sérmál Íslands væri dönsku ráðherrunum ekkert atkvæði ætlað, né áhrif á þau að hafa, og þyrfti þau eigi fremur að berast upp fyrir konunginum í ríkisráðinu en einhversstaðar annarsstaðar, og síðast en ekki sízt, að tekið væri fram, að Zahle forsætisráðherra Dana, hefði og kannast við þetta á ríkisráðsfundinum, lýst því yfir þar, að hann skildi, að þetta vekti fyrir alþingi, og hefði hann þá og lofað að þess skyldi gætt.

Ef saga málsins væri þannig tekin upp í væntanlegan konungsúrskurð, svo að það kæmi skýrt fram, að þessi hefði skilningur alþingis verið á málinu, og að á þenna skilning hefði forsætisráðherra Dana fallist, og að þess vegna skifti það Íslendinga þá vitaskuld ekki neinu, hvar uppburður sérmálanna færi fram — það atriði þá og alíslenzkt sérmál, sem verið hefir — þá væri konungsúrskurðurinn þýðingarmikið pólitískt skjal, er einatt mætti þá síðan vitna í.

Eg finn svo ekki ástæðu til að fjölyrða meira um málið, en eftir því, sem það liggur fyrir, tel eg réttast, að hallast að tillögu meiri hl. stjórnarskrárnefndarinnar, og vænti þess og, að meiri hl. hv. deildar geri það í trausti til þess, að hæstv. ráðherra geri sér síðan alt far um, að ganga sem bezt frá málinu, er á konungsfund kemur.