11.08.1914
Neðri deild: 41. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1216 í B-deild Alþingistíðinda. (1209)

121. mál, uppburður sérmála Íslands

Ráðherra (S. E.):

Það virðist augljóst, að opna bréfið 20. okt. 1913, hefir ennþá ekki haft neinn réttindamissi í för með sér fyrir oss. Um slíkt getur þá fyrst verið að ræða þegar fyrirhugaður úrskurður verður gefinn út, samfarastaðfestingu stjórnarskrárfrumvarpsins. Ef fyrirvarinn á þskj. 438 verður samþyktur, þá sé eg ekki betur, en að alþingi hafi slegið því föstu undir hvaða skilyrðum ráðherra megi undirrita úrskurð þann, sem ætlast er til, að gefinn verði út samfara staðfestingu stjórnarskrárfrumvarpsins. Og eg fæ þá jafnframt ekki séð, að úrskurður, sem gefinn er út í framhaldi af þessum fyrirvara, geti bundið landið út fyrir skilyrði fyrirvarans. Þar sem því er slegið föstu í fyrirvaranum, að uppburður sérmála vorra sé sérmál, sem konungur og vér ráðum einir yfir, þá er mér óskiljanlegt annað, en landsréttindum vorum sé borgið með þessum fyrirvara. Jafnframt því og eg held þessu fram, læt eg þess getið, að eg geng út frá því, að í úrskurðinum standi eigi annað, en að málin skuli borin upp í ríkisráði.

Öðru máli væri að gegna ef í væntanlegum úrskurði ætti að standa yfirlýsing um, að engin breyting gæti orðið á þessu fyrirkomulagi fyrr en sambandalög yrði sett milli landanna; þá álit eg, að fyrirvarinn þýddi ekki neitt, því að þá andmælti alþingi því í einu orðinu, sem það fæli ráðherra sínum að undirrita í hinu. En eg lýsi yfir því, að eg undirrita ekki úrskurð með slíku skilyrði, og eg treysti því, að hv. alþingi trúi mér til að efna það.

Viðvíkjandi breytingartill. á þskj. 455 skal eg geta þess, að sá fyrirvari, sem þar er, er nægilega tryggur, og með honum væri landsréttindum vorum að fullu borgið, — en hinsvegar má ganga að því vísu, að frumvarpið verður ekki staðfest með þeim fyrirvara, og mun eg því óhikað greiða atkvæði á móti honum. Þar með vil eg þó ekki segja, að eg vilji fullyrða, að stjórnarskrárfrumvarpið verði staðfest með hinum fyrirvaranum á þskj. 438, og get eg í því efni vísað til ummæla minna í sameinuðu alþingi 3. þ. m. Eins og eg sagði þá, þá hefir Hans hátign konungurinn ekki gefið mér neitt loforð um að staðfesta stjórnarskrárfrumvarpið, en kvaðst ekki geta sagt neitt um það, fyrri en hann sæi orðalag fyrirvarans.

Eftir að eg hefi skýrt hinu háa alþingi frá þessu, má því vera ljóst, undir hvaða horfum það samþykkir stjórnarakrárfrumvarpið, og hlýtur það því að bera sinn hluta af ábyrgð þeirri, sem leiða kynni af því, ef stjórnarskrár frumvarpinu, vegna fyrirvarans, yrði synjað um staðfestingu.

Út af athugasemd í nefndaráliti meiri hl. í þá átt, að nefndin gangi út frá því, að eg skýri konungi frá fyrirvaranum, lýsi eg yfir því, að eg mun að sjálfsögðu skýra konungi eins ljóst og eg get frá skilningi og vilja alþingis í þessu máli.

Loks leyfi eg mér að mæla með því, að fyrirvarinn á þskj. 438 verði samþyktur, því að eg tel hann tryggan vörð um landsréttindi vor.