11.08.1914
Neðri deild: 41. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1218 í B-deild Alþingistíðinda. (1210)

121. mál, uppburður sérmála Íslands

Framsögum. (Einar Arnórsson):

Eg býst við, að menn hafi þegar gert sér ákveðnar skoðanir um þetta mál, og að langar umræður sé þess vegna þýðingarlausar. En eg ætla að eins fyrir mína hönd og meiri hl, að lýsa afstöðu minni í þessu máli.

Eg ætla þegar að taka það fram, að ef sá skilningur er lagður í opna bréfið frá 20. okt. 1913, að í konungsúrskurð þann, sem þar er boðaður, verði tekið upp ákvæði um, að honum megi ekki breyta, fyrr en sambandslög milli landanna sé samþykt af alþingi og ríkisþingi og staðfest af konungi, þá álít eg ekki nægilegt að setja slíkan fyrirvara, sem hér er gert. Eg teldi hann þá alveg þýðingarlausan. En bæði hefir hæstv. fyrrv. ráðherra (H. H.) lýst yfir því, að það væri ekki tilætlunin, að setja annað í hinn væntanlega konungsúrskurð, en það eitt, að málin verði borin upp fyrir konungi í ríkisráði, og á hinn bóginn hefir hv. ráðh. (S. E.) skýrt þinginu frá því, að hann muni ekki ganga að því, að neitt slíkt skilyrði verði sett í konungsúrskurðinn. Eg treysti því, að það sé alveg hárrétt, að það sé satt, sem hv. 1. þm. Eyf. (H. H.) hefir lýst yfir við 1. umr. þessa máls, þó að því hafi verið alment haldið fram áður, og opna bréfið frá 20. okt. 1913, ásamt umræðunum í ríkisráðinu s. d. hafi svo alment verið skildar hér á landi. En eg játa, að skýringin getur verið rétt, vegna orðalags bréfsins, sú, að margnefnt skilyrði verði ekki tekið upp í konungsúrskurðinn. Það, sem nefndin, eða að minsta kosti meiri hl. hennar, leggur til í málinu, byggist því á því, að í konungsúrskurðinum verði ekkert skil. yrði sett um það, að eigi megi breyta honum, eins og hverjum öðrum íslenzkum konungsúrskurði.

Eins og kunnugt er, var ákvæðið um uppburð sérmálanna í ríkisráðinu tekið upp í stjórnarskrána með stjórnskipul. 3. okt. 1903. Að vísu var þá hreyfing uppi um það, að þetta væri hættulegt ákvæði. En þá var það tekið fram á þinginu 1903, að frv. væri samþykt á þeim grundvelli, að hér væri um sérmál að ræða, og að þingið hefði rétt til að taka ríkisráðsákvæðið úr stjórnarskránni, þegar það vildi.

Eg vil nota tækifærið til þess að lýsa yfir því, að með orðinu »sérmál« á eg aðeins við þau mál, sem stjórnskipunarlög landsins taka yfir. Og það er þessi merking, sem er í orðinu á þskj. 438. Óánægjan með ríkisráðsákvæðið magnaðist þegar frá, leið, og árið 1911 var samþ. breyting á stjórnarskránni, þar sem orðin »í ríkisráði« vóru niður feld, án þess að nokkuð væri sett í þeirra

stað. En við því komu þau svör frá konungsvaldinu, að breyting þessi yrði ekki staðfest, nema lög um samband landanna yrði sett um sama leyti. Þingið 1913 tekur að vísu út þetta ákvæði, ríkisráðsákvæðið, en segir jafnframt, að málin skuli borin upp fyrir konungi »þar sem hann ákveður«. Þetta var einskonar millivegur, og svo var það skilið 1913. Eg vil fullyrða, að það hafi verið fjarri þinginu 1913 að breyta því, að stjórnarskrárlöggjafarvald landsins gæti ráðið því, hvar málin væri borin upp. Að vísu bjuggust menn við því, að konungur mundi gefa út úrskurð um, að framvegis yrði málin borin upp fyrir honum í ríkisráði Dana. En menn bjuggust ekki við því, að því mundi fylgja neitt skilyrði, er fyrirbygði, að sérmálalöggjafarvaldið íslenzka réði því eitt eftir sem áður.

Eins og kunnugt er, eru skiftar skoðanir um opna bréfið frá 20. okt. 1913 og það, sem fram fór í ríkisráðinu þann sama dag. Hv. 1. þm. Eyf. (H. H.) álítur, að þar hafi verið gerðar 2 stjórnarráðstafanir, önnur íslenzk og hin dönsk. Íslenzka ráðstöfunin sé um uppburð málanna.

Það er alveg rétt hjá hv. 1. þm. Eyf. (H. H.), að þessi ráðstöfun opna bréfsins er að forminu til íslenzk, því að konungur gaf hana út með undirskrift og á ábyrgð Íslandsráðherra. Hitt segir hann að sé dönsk ráðstöfun, að skipulaginu verði ekki breytt fyrri en sambandslög eru sett milli landanna og svo auglýsing hennar í Danmörku. En af því að þessi ráðstöfun er tekin upp í opna bréfið, þá er hún einnig íslenzk og á ábyrgð Íslandsráðherra. En eg verð að halda því fram, að dönsk stjórnarvöld hafi ekki átt rétt á að hlutast til um þetta mál, og að Íslandsráðherra hafi ekki átt að láta þau afskifti ómótmælt.

Það hefir verið litið svo á, að hlutdeild danska forsætisráðherrans og konunga og þögn Íslandsráðherra yrði að skiljast sem einskonar samkomulag um, að þessi mál skyldi borin upp í ríkisráðinu, þar til sambandslög yrði samþykt. Með öðrum orðum, að uppburðurinn sé bundinn skilyrði, sem Íslendingar ráði ekki einir yfir, heldur Danir líka. Eg verð að halda því fram, að þetta sé rétt skoðun hjá mér, en eg áfellist ekki hina, sem líta á þetta öðrum augum. Eg er sannfærður um, að hér hefir verið gengið lengra en til var ætlast af alþingi, og því er sjálfsagt, að það verður að taka afstöðu í málinu og afgreiða það með fyrirvara um, að hér sé ekki verið að binda landið neinum þeim böndum, sem ekki hafa verið áður á því að réttum stjórnskipunarlögum. Hafi verið farið lengra 20. október 1913 í opna bréfinu og í samkomulaginu í ríkisráði en heimild þingsins 1913 náði til, þá getur það ekki orðið bindandi fyrir landið, nema vér samþykkjum það nú eða síðar. En þess eru engar vonir, að það verði gert. Það er nægilegt, að þingið tjái landið óbundið af skilyrðum þeim, sem sett eða samþykt hafa verið andstætt vilja þingsins 1913, um uppburð sérmála vorra í ríkisráði.

Staðfesti konungur stjórnarskrána ekki ef fyrirvarinn á þskj. 438 er samþyktur, þá sýnir það, að vér höfum haft rétt fyrir oss, og þá er eigi heldur nein skerðing gerð á réttindum vorum. Samþykki konungur stjórnarakrána andmælalaust, þá þýðir það ekki annað en það, að þá verður að líta svo á, að hann gangi að skoðun vorri eða kröfum í þessu efni. Og ef konungur setur ný skilyrði, eða Danir, þá er auðvitað að ráðherra vor má alls eigi ganga að þeim, ef nokkur hætta er á því, að réttindi landsins stjórnskipulega skerðist á nokkurn hátt við þau.

Þá skal eg snúa mér að tillögum þeim, sem fram hafa komið um fyrirvarann. Þær eru þrjár. Skal eg fyrst víkja að tillögu vorri, meiri hl. nefndarinnar, á þskj. 438.

Mér er kunnugt um það, að ýmsir hv. þm. telja till. ekki heppilega orðaða. Hv. þm. Dal. (B. J.) hefir nú að mestu tekið af mér það ómak, að svara hv. 1. þm. N. Múl. (J. J.) og hv. þm. N.-Þing. (B. Sv.). Það er þetta »ef« í tillögunni, sem hv. þm. helzt hengja hatt sinn á. En tillagan er svo orðuð, til þess að gera hana sem aðgengilegasta fyrir konungsvaldið og til þess að reyna að fá samkomulag um hana í þinginu. Þýðing tillögunnar er sú, að í engu sé landsréttindi vor skert, hvernig sem menn annars líta á opna bréfið 20. okt. 1913, og ríkisráðsumræðurnar s. d. Hún er mótmæli vor gegn því. Þótt einhver kunni að segja, að vér séum bundnir við úrskurðinn 20. okt. 1913, þá liggur þar til það svar, að svo sé ekki fyrr en þingið hefir gengist undir hann, en þessi tillaga aftrar því.

Brt. á þskj. 455 er að sumu leyti að efni samskonar till. á þskj. 438. En í brt. á þskj. 455 er það beint sett að skilyrði fyrir stjórnarskrárstaðfestingu, að konungur afturkalli úrskurð sinn frá 20. okt. 1913.

Það leiðir af því, sem áður hefir verið tekið fram, að engin nauð rekur til að krefjast þess, því að ef vér samþykkjum tillöguna á þskj. 438, þá höfum vér þar með lýst afstöðu vorri, og getur þá opna bréfið 20. okt. 1913 eigi talist bindandi fyrir oss. Því er eg á móti tillögunni á þskj. 455, enda er og mjög líklegt, að hún mundi, ef samþykt yrði, leiða til þess, að stjórnarskráin nái ekki staðfestingu konunga. Því að ekki er ólíklegt, að konungur mundi ófús á beinlínis að afturkalla opna bréfið frá 20. okt. 1913, enda má oss á sama standa, þar sem klausa þess um breytanleik úrskurðarins, uppburð sérmálanna, er alls eigi stjórnskipulega bindandi fyrir oss. Og konungur veit, að hverju hann gengur, þegar hann staðfestir, eða ef hann staðfestir stjórnarskrárfrum varpið.

Tillaga minni hlutans á þskj. 447 er mjög lík till. á þskj. 438. Það, sem skilur, er aðallega það, að í stað þess, sem í till. á þskj. 438 er skírskotað til þingsins 1913, er í þessari tillögu höfð óákveðnari orð: »nú sem fyrr«, sem auðvitað grípur líka yfir þingið 1913, þótt ekki sé það undirstrykað eins og í till. á þskj. 438.

Hins vegar eru ekki meiri líkur til að ná staðfestingu á stjórnarskránni með því að samþykkja till. á þskj. 447 en till. á þskj. 438, því að aðalatriðið í þeim báðum er það, að taka það skýrt fram, að uppburður mála vorra í ríkisráðinu sé sérmál. Að því leyti hafa báðir stjórnmálaflokkar þingsins mætzt, og er það ánægjulegt, að ekki hefir orðið meiri ágreiningur f nefndinni en raun er á orðin, þótt forsendur sé að nokkura ólíkar. Sambandsmenn vilja eigi samþykkjast þeirri skoðun, að ráðherra hafi farið út fyrir heimild þingsins 1913, en vér höldum því fram, að svo hafi verið. Þeir telja það, er gerðist 20. okt. 1913 alveg hættulaust, en vér teljum það hættulegt, nema vér mótmælum því. Báðir flokkarnir vilja þá sýna þá varúð að setja fyrirvara um uppburðinn og hvorugur vill gera neitt, sem skert geti rétt landsins.