11.08.1914
Neðri deild: 41. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1223 í B-deild Alþingistíðinda. (1211)

121. mál, uppburður sérmála Íslands

Framsögum. minni hl. (Jón Magnússon):

Eg get í rauninni látið mér nægja að vísa til nefndarálitsins. Það sýnir, að samkomulag hefir orðið í nefndinni bæði um stjórnarskrána og aðalefni fyrirvarans. Þessvegna er ekki ástæða til að eyða löngum tíma í deilur um tillögurnar.

Það er rétt hjá háttv. framsm. meiri hl. (E. A.), að munurinn á tillögunum er meira fólginn í orðalagi en efni. Sá munur, sem er, kemur til af því, að minni hluti nefndarinnar kannast ekki við, að skilningur meira hlutana á því, sem gerðist í ríkisráðinu 20. okt. 1913, sé réttur. Minni hlutinn getur ekki séð annað, en að þar hafi farið fram alíslenzk ráðstöfun, því að þótt konungur knýti þar við skilyrði, getur samt ekki verið um danska ráðstöfun að ræða og engan samning frá vorri hálfu.

Það hefir verið talað um, að munurinn á tillögum meira og minna hlutana sé aðeins sá, að í tillögu minna hl. sé ekki nefnt þingið 1913. Það er rétt, að minni hlutinn kannast ekki við, að þingið 1913 hafi sett nokkur skilyrði fyrir því, hvernig uppburði sérmála vorra í ríkisráðinu skyldi vera hagað. Þetta kom aldrei fram í þinginu, svo að eg viti.

Annars var það samkomulag í nefndinni nú, að leggja engin ámælisorð til fyrrverandi ráðherra í umræðunum um fyrirvarann. Þetta samkomulag þykir mér háttv. þm. Dal. (B. J.) ekki hafa haldið, eins og eg mun síðar víkja að. Eg get ekki séð, að fyrrverandi ráðh. sé nokkurra ámæla verður. Eg skil svo það, sem gerðist í ríkisráðinu 20. okt. 1913, að konungur lýsi yfir þeim vilja sínum, að hann vilji ekki taka sérmál vor út úr ríkisráðinu, fyrr en samningar hafi orðið um samband landanna. En niðurlag konungabréfsins er að skilja svo, að konungur vilji ekki breyta frá því, sem hann hefir áður tilkynt þinginu.

Hitt, að þessi ráðstöfun sé auglýst í Danmörku, fáum vér ekki ráðið við. Það er algerlega dönsk ráðstöfun, sem vér erum ekki bundnir við.

Á þinginu 1913 var ekki minzt á skilyrði fyrir uppburði sérmála vorra í ríkisráðinu, og í stjórnarskrárnefndinni þá, sem eg átti sæti i, var ekkert að því vikið, nema hvað ráð var fyrir gert, að úrskurðurinn um það færi fram með undirskrift konungs og Íslandsráðherra eins.

Það mætti nú spyrja að því, hvort nokkur þörf væri á því að samþykkja nokkurn fyrirvara nú, þar sem ekkert hefir fram farið á ríkisráðsfundinum 20. okt. 1913, er oss geti gert skaða. En það, að vér, minni hluti nefndarinnar, höfum samt komið fram með tillögu til fyrirvara, stafar af því fyrst og fremst, að því hefir verið haldið fram af mörgum, að vér höfum beðið skaða af téðu bréfi, og kynni þá til þess að verða vitnað af miður vönduðum dönskum stjórnmálamönnum. Í annan stað hefir þingið jafnan notað hvert tækifæri til að lýsa yfir því, að uppburður sérmála vorra fyrir konungi væri sérmál, er breyta mætti með stjórnarakrárbreytingu, og kemur það heim við fyrirvara þingsins 1903.

Það er rétt hjá háttv. þm. Dal. (B. J.), að þingið 1913 ætlaðist til þess, að uppburður sérmálanna væri sérmál. En á því er og engin breyting gerð með hinu opna bréfi. Það er íslenzk stjórnarráðstöfun, sem nema má úr gildi á sama hátt og auðvitað líka með stjórnarskrárbreytingu.

Eg sagði áðan, að háttv. þm. Dal. (B. J.) hefði ámælt fyrrverandi ráðherra. Því neitar háttv. þm. Eg veit ekki, hvað háttv. þm. Dal. (B. J.) kallar ámæli, ef ekki það, að það hafi verið óleyfilegt að gefa úr áðurnefnt opið bréf og ráðherra óleyfilegt að undirskrifa það og að ráðherra hafi þar traðkað vilja alþingis. Eg held, að þetta sé ámæli, sem ekki var til ætlast af nefndinni. Eg skildi ekki þjóðréttarkenningar háttv. þm. Dal. (B. J.) um tilkynningar ríkja á milli. Þessa auglýsing í Danmörku á því, sem gerðist á ríkisráðsfundinum 20. okt. 1913, gátum vér ekki ráðið við. Eg sá ekki hvað vantar á ámæli háttv. þm. Dal. (B. J.), annað en uppástungu um vantraustsyfirlýsing til fyrrverandi ráðherra.

Hæstv. ráðherra (S. E.) hefir, að mér skilst, tekið að sér ábyrgð á því, að stjórnarskráin verði staðfest, þrátt fyrir það þótt fyrirvari meira hluta nefndarinnar verði samþyktur. Eg undirstryka þau orð hana. Hæstv. ráðherra (S. E.) getur ekki aðhylzt fyrirvarann nema því aðeins, að hann sé viss, að með honum sé ekki hindruð staðfesting stjórnarskrárfrumv. Ella væri betra að samþykkja alls ekki stjórnarskrárfrumvarpið nú, eða láta það óútrætt, eins og hv. þm. N.-Þing. (B. Sv ) hélt fram.

Að svo stöddu finn eg ekki ástæðu til að tala fleira, sérstaklega eftir ræðu háttv. framsögum. meiri hlutans (E. A.). Hann hefir skýrt rétt frá því, að ágreiningurinn var ekki um aðalatriðið, heldur um skilninginn á því, sem gerðist í ríkisráðinu 20. okt. 1913. Eg held, að skilningur minni hlutans sé réttur. Og eg hygg, að tillaga minni hlutans Sé skýrari en tillaga meiri hlutans, að eg ekki tali um tillögu háttv. þm. N.-Múl. (J. J.). Ef sú tillaga verður sþ., skilst mér blátt áfram vera beðið um synjun á stjórnarakránni. Þá væri miklu hreinlegra að láta stjórnarskrárfrumvarpið bíða.