11.08.1914
Neðri deild: 41. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1239 í B-deild Alþingistíðinda. (1217)

121. mál, uppburður sérmála Íslands

Ráðherra (S. E.):

Eg skal játa, að eg hafði búist við, að hugur minn og hugur hv. þm. N.-Þing. (B. Sv.) Stæði fastara saman um sjálfstæðismál þjóðarinnar en nú er raun á orðin. Eg gat ekki skilið orð hans öðruvís en svo, að hér væri verið að stofna sjálfstæði landsins í hættu með því að samþykkja þennan fyrirvara. Hann sagði, að orðalag fyrirvarans væri loðið og óábyggilegt. Eg get alls ekki séð, að svo sé, og verð eg að taka í sama strenginn og háttv. framsögum., því að það eru ekki stóryrðin, sem leysa vandamál þjóðanna. Lipurð og gætni fær þar meira til vegar komið.

Eg þarf svo ekki að fara lengra út í að svara þessu, því að hv. framlögum. (E. A.) gerði það svo rækilega. En það var annað, sem eg hjó eftir í ræðu hv. þm. N.-Þing. (B. Sv.). Hann sagði, að vér hefðum nóg til að deila um við Dani, þótt vér færum ekki að deila um þetta. Það er rétt eins og stjórnarskrárfrumvarpið sé eitthvert smámál. Það er svo fyrir mér, að það sé eitt af stórmálum vorum, eitt af þeim málum, sem feli í sér margar af kærustu óskum þjóðarinnar. Einmitt þessvegna vil eg leggja áherzlu á að koma málinu áfram. Og eg, sem að öðru leyti tel þá pólitík hyggilegasta að forðast ágreiningsmálin við Dani, sé ekki annað, en nauðsynin knýi oss til að halda þessu máli áfram vegna hinna miklu réttarbóta, sem í því felast, þó fyrirvarinn, sem að sjálfsögðu vegna landsréttinda vorra verður að fylgja því, kunni að fela í sér ásteytingarsteina út á við.

Háttv. þm. N.-Þing. (B. Sv.) var að tala um, að þetta gæti orðið hættulegt fyrir ráðherrann, — en þá er að taka því, og sjálfsagt er að fara úr stólnum þegar erindinu er lokið.