11.08.1914
Neðri deild: 41. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1251 í B-deild Alþingistíðinda. (1223)

121. mál, uppburður sérmála Íslands

Framsögum. meiri hl. (Einar Arnórsson):

Það eru aðeina örfá orð, sem eg vildi segja. Háttv. þm. N.-Þing. (B. Sv.) mintist ekki í seinni ræðu sinni á ásakanir til meiri hluta nefndarinnar og legg eg það svo út, að hann hafi fallið frá því, að meiri hlutinn hafi látið minni hlutann múlbinda sig, ásamt fleiri virðulegum og þinglegum orðum, er hann notaði. (Benedikt Sveinsson: Það er viðurkent af háttv. 2. þm. Rv. (J. M.) og háttv. þm. Dal. (B. J). Það er ekki viðurkent. Eg benti háttv. þm. N.-Þing. (B. Sv.) á það, sem segir á 3. bls. í nefndarálitinu og það stendur óhrakið. Annars er mér óljúft að eiga í orðakasti við þennan háttv. þm., enda mun það koma fyrir ekki, þar sem hvor heldur sjálfsagt við sína skoðun.

Háttv. 2. þm. N. Múl. (J. J.) áleit, að umboðsmaður gæti skuldbundið umbjóðanda sinn, jafnvel þó að hann gerði annað en það, sem honum var heimilað að gera. En eg veit ekki til, að svo sé. Ef umboðsmaður fer út fyrir umboðið, þá er sá, sem honum bauð um ekki bundinn, nema hann samþykki gerðir umboðsmannsins á eftir. (Jón Jónsson: En ef umboðið er ótakmarkað?). Þó að umboðið sé kallað ótakmarkað, þá liggur það í hlutarins eðli, að það getur ekki verið það. Og hér er því ekki til að dreifa, því að umboð ráðherra takmarkast af vilja þingsins. Og sá, er semur við umboðsmanninn, verður að sanna víðtæki umboðsins.

Þetta er aðalatriðið í málinu, hvað ráðherra hafi verið heimilt að gera. Og þar sem eigi var heimilt að gera neina ráðstöfun, er takmarkaði sérmálavald vort, þá er nóg til vara að mótmæla, eins og hér er farið fram á.