07.07.1914
Neðri deild: 5. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1255 í B-deild Alþingistíðinda. (1229)

1. mál, íslenski fáninn

Ráðherra (H. H.):

Mér kemur þessi tillaga dálítið undarlega fyrir, þar sem eg hefi þegar lagt fánamálið fyrir sameinað alþingi til athugunar. Eg tel bezt við eigandi, að þingið í heild sinni fjalli um málið, enda er það vafalaust lang heppilegast fyrir allan gang málsins og úrslit þess. Eins og allir háttv. þm. vita, beindi eg þeirri ósk til forseta sameinaða þings, að hann kallaði saman sameiginlegan fund þingmanna fyrir lokuðum dyrum. Nú er svo ákveðið, að þessi fundur verði haldinn á morgun kl. 5 e. h. Eg fæ ekki skilið, að rétt sé að draga málið úr höndum sameinaða þings og eg fæ heldur ekki skilið, að svo mikið liggi á að kjósa þessa nefnd, að það megi ekki dragast þangað til eftir fundinn á morgun. — Ástæðan til þess, að eg mæltist til, að málið yrði rætt á privatfundi þingmanna, var sú, að margt kann að koma fyrir í umræðum um þetta mál, sem ekki er heppilegt, að birt sé í þingtíðindum né blöðum og sumt er það, sem eg gæti skýrt háttv. þingmönnum frá trúnaðarlega, en ekki mun ræða á opinberum fundi hér í þingsalnum. Það væri heppilegt fyrir háttv. deildarmenn, og ekki sízt fyrir ráðherraefnið, sem er einn af flutningsmönnum þessarrar tillögu, að kynna sér ýmislegt, er að málinu lýtur, áður en þeir greiða atkvæði um þessa tillögu. Heppilegast væri, að tillagan væri tekin aftur, en ef það verður ekki, þá vona eg, að hún verði feld.