07.07.1914
Neðri deild: 5. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1256 í B-deild Alþingistíðinda. (1230)

1. mál, íslenski fáninn

Flutn.m. (Skúli Thoroddsen):

Hv. ráðherra (H. H.) þykir það óeðlilegt, að þingsál.till. þessi skuli vera fram komin. Mér, og oss flutningsmönnunum, þykir það aftur á móti eðlilegt, og í rauninni alveg sjálfsagt.

Eins og eg tók fram í fyrri ræðu minni, viljum vér ekki sætta oss við það, að fánamálið, eða sú hlið þess, sem fjallar um gerð fánans, sé dregin úr höndum þingsins, og lögð í hendur þingmanna, sem »privat«-manna. Málið er löggjafarmál, og þess vegna lang eðlilegast, að þingið fjalli um það sem löggjafarþing.

Nefndarskipunin, sem hér ræðir um, getur og á engan hátt komið í bága við »privat«-þingmannafundinn, sem haldinn verður á morgun, til þess að hlýða á skýrslu ráðherra, og rabba fram og aftur um gerð fánans, fyrir luktum dyrum. Hitt, — að þar verði nokkur ályktun gerð, getur á hinn bóginn eigi komið til neinna mála, en sjálfsagt, að menn skírskoti aðeins til nefndarinnar, sem þá hefir þegar verið skipuð.

Meiningamunurinn milli vor flutningsmannanna, og hv. ráðherra (H. H.) er þessi, að hann vill leiða málið til lykta, og samþykkja gerð fánans með atkvæðagreiðslu á »privatfundi« fyrir luktum dyrum, en vér viljum ekki, að annarri aðferð verði beitt við málið, en við önnur löggjafarmál.