17.07.1914
Neðri deild: 14. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1260 í B-deild Alþingistíðinda. (1237)

63. mál, strandferðafyrirkomulagið

Ráðherra (H. H.):

Samkvæmt heimild í lögum síðasta alþingis, er staðfest vóru af konungi þann 10. nóvbr. 1913, gerði landsstjórnin 4. febr. þ. á. bráðabirgðarsamningviðstjórn Eimskipafélags Íslands. Vóru þá, samkvæmt nefndri heimild, keyptir fyrir hönd landssjóðs, hlutir í félaginu fyrir 400 þús. kr., með því skilorði, að Eimskipafél. taki frá apríl. 1916 að sér strandferðir með tveim skipum eða fleiri, og sé ferðirnar ekki lakari að skipakosti né óhentugri en strandferðir þær, er verið hafa að undanförnu, síðan 1911. En um stærð skipanna, fyrirkomulag ferðanna, ferðaáætlanir og taxta, og jafnframt um styrkinn úr landssjóði á hverjum tíma sem er, fer eftir síðari samningum milli landssjóðs og félagsins. Þessir samningar verða að vera gerðir fyrir 1. febrúar 1915.

Af hlutafjárhæðinni hefir landssjóður þegar greitt 100 þús. kr. Hinn hluti upphæðarinnar, 300 þús. kr., á að greiðast 1. febrúar 1915, og um leið verður þá samið um, hvernig skipin eigi að vera o. s. frv.

Til þess að slíkir samningar verði gerðir, þarf landstjórnin að vita, hvað þingið vill greiða fyrir strandferðirnar. Það gjald fer auðvitað eftir því, hve miklar kröfur verða gerðar til strandferðanna. Stjórnin hefir reynt að undirbúa málið. Hinn nýskipaði samgöngumálaráðunautur hefir ferðast um landið og kynt sér viðkomustaði og annað, sem nauðsynlegt er að fá að vita í þessu sambandi. Hann hefir nú sent stjórninni 3 áætlanir með nákvæmum lýsingum. En þessu starfi hans var ekki lokið fyrr en í gær, Svo að stjórnarráðið hefir ekki getað tekið endanlega afstöðu til tillagna hans.

— Samgöngumálaráðunauturinn lýsir þrennskonar fyrirkomulagi á strandferðunum.

Í fyrsta lagi, að höfð verði til strandferðanna tvö ný skip, annað aðallega til farþegaflutnings, er sé um 350 smálestir, hitt 450 smálestir, aðallega til farmflutnings. Hinu síðara sé ætlað að fara á smáhafnir, en hinu fyrrnefnda aðallega á stærri hafnir landsins. Hann ætlast til, að farþegaskipið geti haft 50 manns á 1. plássi, 50 á öðru og 100 á 3. En stærra skipið ætlast hann til að geti rúmað 20 á 1. plássi, 40 á 2. og 140 á 3. Auk strandferða fari það við og við til útlanda.

Önnur tillaga frá samgöngumálaráðunautnum er sú, að 2 ný skip verði höfð til strandferðanna, er sé jafnstór, um 400 smálestir að stærð, líkt og Hólar og Skálholt, og sé ferðum þeirra hagað svipað og ferðum þessara skipa, en ferðir þeirra þó tíðari, enda ljúki skipin jafnan heilli hringferð hvort, og fari til útlanda við og við.

Þriðja tillagan fer fram á það, að höfð verði þrjú skip til strandferða, þ. e. tvö ný, eins og gert er ráð fyrir í tillögunni og með samskonar ferðum, en eitt skip að auki, sem ekki þarf að vera nýtt, og sé minna, 225–250 smálestir. Þessu skipi er ætlað að vera í ferðum árið í kring, einkum milli Reykjavíkur, Austfjarða og Vestfjarða, og fara 2–3 hringferðir á ári á hina stærri viðkomustaði.

Eg þarf ekki að orðlengja um þessa tillögu. Eg vona, að; manna nefnd verði valin til að athuga málið. Samskonar tillögu ber eg upp í efri deild í dag, og er farið fram á, að þar verði sett 5 manna nefnd í málið. Það er tilætlun mín, að þessar nefndir báðar vinni saman, líkt og strandferðanefndir beggja deilda í fyrra. Það er þá hlutverk nefndanna ekki aðeins að komast að niðurstöðu um það, hvert fyrirkomulag skuli hafa á strandferðunum, heldur og hvað greiða skuli fyrir strandferðirnar, svo að um þetta verði gerðir samningar fyrir 1. febr. 1915. Stjórn eimskipafélagsins hefir ekki hingað til getað komið með nein ákveðin tilboð um þetta vegna þess, að forstjóri félagsins, Nielsen skipstjóri á Sterling, hefir ekki verið hér. En nú er hann kominn hingað, og ætti þá ekkert að vera að vanbúnaði til þess, að samninga væri farið að leita.