04.08.1914
Neðri deild: 34. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1266 í B-deild Alþingistíðinda. (1245)

85. mál, brúargerð á Langá

Guðmundur Eggerz:

Eg vil leyfa mér að reyna að sýna fram á, að tillaga háttv. þm. Mýr. (J. E.) er töluvert ósanngjörn, og ekki viðeigandi af þinginu að samþykkja hana nema því aðeins, að viðaukatillaga háttv. þingm. Snæf. (S. G.) verði samþykt um leið.

Eg vil leyfa mér að benda á, að þessi vegur, sem brúin er einn hluti af, er þjóðvegur, sem sýslunni ber skylda til að kosta viðhaldið á. Spurningin, sem hér liggur fyrir, er því sú, hvort létta eigi viðhaldsskyldunni af Mýrasýslu að því er brúna snertir. Hér er ekki um annað að tala. Háttv. þingm. Mýr. (J. E.) virðist ganga út frá því, að landsjóði beri skylda til að annast viðhald brúarinnar, og skil eg ekki, hvernig hann fer að álíta það. Annað mál væri það, ef brúin hefði ekki upphaflega verið gerð á landsjóðs kostnað. (Jóhann Eyjólfsson: Það var hún einmitt ekki.) Jú, eftir bréfi, sem eg hefi hér í höndunum, lagði landsjóður 1000 kr. til brúargerðarinnar, en sýslusjóður Mýrasýslu aðeins kr. 407,88. Verður því ekki með sanni sagt, að brúin hafi verið gerð á kostnað sýslunnar. En hvað sem því líður, þá verður það ekki talið annað en ósanngjarnt, og eg skil ekki að margir verði til þess að ljá því atkvæði sitt, að leggja þessa brú fyrir það fé, sem þingið í fyrra veitti til þess að halda áfram veginum frá Borgarnesi til Stykkishólms. Það vita allir, sem sátu hér á þinginu í fyrra, og allir, sem þingtíðindin hafa lesið, að féð var veitt eingöngu í því augnamiði að halda þessum þjóðvegi áfram, en ekki til þess að Mýrasýsla fengi það til að gera við þessa brú, sem hún sjálf er skyldug til að halda við.

Því fremur er þetta ósanngjarnt, þar sem einnig er byrjað á þessum vegi frá Stykkishólmi, og Snæfellsnessýsla hefir lagt til hans yfir 2500 krónur. Og þetta hefir hún gert til þess, að vegurinn kæmist sem fyrst alla leið. Nú er vegur kominn frá Stykkishólmi og upp undir fjall, eða lengra. (Sigurður Gunnarsson: Upp að Síkjum). Og því síður er ástæða til að breyta þessari fjárveitingu, þar sem full ástæða er til að ætla, að Mýrasýsla hafi ekki haldið veginum frá Borgarnesi eins vel við og skyldi. Mér er kunnugt, að þegar eg var fyrir vestan, þá vórum vér lengi að þvæla um það við Mýrasýslu, að hún málaði brú, sem var á takmörkum sýslnanna, en þess var enginn kostur að fá hana til þess. Lyktaði því máli svo, að vér urðum sjálfir að mála brúna upp á eigin kostnað.

Eg get hugsað mér, að líkt hafi farið um Langárbrúna.

Eg vil leggja áherzlu á það, að þingið hefir ekki heimild til að taka það fé aftur, sem það hefir einusinni veitt á fjárlögunum. Eg vil benda hv. deild á, að Stykkishólmsvegurinn er nú kominn yfir Haffjarðará, en þar fyrir vestan taka við ófær fen og flóar, og upphæðin, sem til vegarins var veitt í fyrra, var einmitt miðuð við það, að koma vegi yfir þessar ófærur. (Sigurður Gunnarsson: Þetta sést líka í þingtíðindunum). Eg endurtek það enn einusinni, að eg tel það alveg ófært að taka þetta fé og leggja það til Mýrasýslu; það mætti alveg eins leggja það til Húnavatnsýslu, eins og hv. þm. Snæf. (S. G.) skaut að mér.