04.08.1914
Neðri deild: 34. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 1270 í B-deild Alþingistíðinda. (1247)

85. mál, brúargerð á Langá

Bjarni Jónsson:

Eg vil halda, að ekki sé hægt að breyta fjárlögum með þingsályktunartillögu, og þar sem einusinni hefir verið veitt fé á fjárlögum til framhalds veginum frá Borgarnesi til Stykkishólms, þá hygg, eg að ekki geti komið til mála að taka það fé aftur og byggja fyrir það þessa brú.

Mýrasýsla mun vera skyldug til að halda við þeirri brú sem er, svo að umferð um veginn teppist ekki vegna skemda á henni.

Hinsvegar tel eg rétt, að ef hér verður gerð steinsteypubrú, þá verði þess ekki krafist af sýslunni, að hún geri hana upp á eigin spýtur, heldur leggi hún aðeins til 1/3 af kostnaðinum, en landssjóður hitt. Þetta er í samræmi við vilja og tillögur landsverkfræðingsins, og þannig var þessu tilhagað, eftir hans ráðstöfun, þegar brúin var lögð yfir Steinslæk á Holtaveginum. En þar stóð eins á og hér. Mér skilst, að þingið nú þurfi ekki að veita neina fjárveitingu í þessu skyni, því að landsverkfræðingurinn hefir, ef eg veit rétt, ráð á einhverju fé til vegagerðar, sem hann hefir heimild til að nota, ef tengja þarf saman vegarspotta, til þess að gera þá nothæfa, eða ef eitthvað annað smávegis þarf að gera við vegi, og vinda þarf bráðan bug að. Eins getur stjórn veitt fé til þessa fyrirtækis upp á væntanlegt samþykki alþingis. Þannig var farið að í fyrra, þegar brúnni á Steinslæk var breytt í steinsteypubrú.

Eg get ekki séð neitt á móti því að samþykkja tillögu hv. þm. Snæf. (S. G.) og hygg eg, að það sé misskilningur hjá hv. þm. Mýr. (J. Eyj.) að hún spilli fyrir máli hans. Honum getur ekki verið annað kappsmál, en að fá fé til brúargerðarinnar á Langá. Í hinu er honum vitanlega engin þægð, að féð sé tekið frá Stykkishólmsveginum.

Eg mun greiða atkvæði með aðaltillögunni, ef viðaukatillaga hv. þm. Snæf. (S. G.) verður samþykt, en falli hún, þá verð eg að greiða atkvæði á móti brúnni.