28.07.1914
Neðri deild: 23. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 158 í B-deild Alþingistíðinda. (128)

89. mál, friðun héra

Framsögumaður (Guðmundur Hannesson):

Háttv. 1. þm. Rang. (E. J.) hefir nú svarað sumu af því, sem eg þurfti að svara.

Háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) sagði, að nefndin hefði dregið ranga ályktun af dæmum þeim, sem hún tilfærir um héra. Þetta er ekki rétt. Hérar eru í öllum nágrannalöndum vorum, og er engin óánægja yfir þeim ; ef þeir hefði gert spell, mundi það hafa heyrzt, því að þá mundu menn hafa reynt að útrýma þeim. En ekkert hefir heyrzt í þessa átt. Því er enga mótsögn um að ræða í nefndarálitinu. En það, að nefndin telur sig ekki mótfallna frumvarpinu, táknar aðeins, að nefndin vill ekki taka það á sína ábyrgð, að hérar sé að öllu skaðlausir, þótt hún sé frv. hlynt.

Skylt er að þakka háttv. 2. þm. Árn. (E. A ) fyrir þá miklu vizku í lok vertíðar, að það gagn megi af hérum hafa, að hafa þá til matar. Þeir vita það þá hér á eftir, sem ekki vissu það áður.