10.07.1914
Efri deild: 5. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 13 í B-deild Alþingistíðinda. (1280)

30. mál, siglingalög

Framsm. (Karl Einarsson):

Frumv. það, sem hjer liggur fyrir, felur í sér breytingar á ákvæðum siglingalaganna 22. nóv. 1913, um árekstur og um björgun.

Að slíkrar breytingar þarf nú, svo skömmum tíma eftir að siglingalögin eru gengin í gildi, stafar af því að stjórninni þykir nú tími til kominn að fullgera samninga um þetta efni, sem ýmsar þjóðin gerðu með sér í Brüssel árið 1910. Þessir samningar, sem í raun og veru eru tveir samningar, annar um árekstur og hinn um björgun, skuldbinda ekki hinar einstöku þjóðir, nema þeir verði staðfestir eða fullgiltir heima fyrir hjá hverri þjóð fyrir sig. En til þess að þetta sje hægt hjá oss, þarf að breyta ákvæðum siglingalaganna um þetta efni. Og það er einmitt það, sem þetta frumvarp gerir, ef það verður að lögum; það inniheldur ákvæði, sem gera stjórninni mögulegt að fullgilda tjeða samninga. Annars ætla jeg ekki að orð lengja frekar um frumvarpið. Það er vel undirbúið frá stjórnarinnar hálfu, nema hvað nefndinni virtist 1. gr. ekki í fullu samræmi við ákvæði samninganna, og hefir hún því lagt það til að á henni verði gerðar nokkrar breytingar, til þess að gera orðalag hennar skýrara; sbr. 6 brtill. fyrstu á þgsk. 45. 7. br.till. nefndarinnar, br. till. við 3 gr., er af sömu rótum runnin. Vil jeg svo fyrir hönd nefndarinnar leggja það til, að hin háttvirta deild samþykki frumvarpið með þeim breytingum, sem nefndin hefir lagt til að á því verði gerðar.