30.07.1914
Neðri deild: 25. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 159 í B-deild Alþingistíðinda. (130)

89. mál, friðun héra

Benedikt Sveinsson :

Mér virtist háttv. deild sýna nokkuð mikla léttúð, þegar hún samþykti þetta frv. við 2. umr. með þó nokkrum meiri hluta. Það er þó ekki svo lítið athugavert, eins og nefndarálitið sjálft ber með sér, að stuðla að því, að hérar verði fluttir í landið og látnir aukast hér og margfaldast.

Háttv. nefnd kvartar um að hún hafi ekki fengið fullnægjandi upplýsingar um það, hvort hér sé um skaðleg dýr að ræða eða ekki. Þetta var þó það fyrsta, sem nefndin var skyldug að gera, áður en hún gæti farið að mæla með innflutningi héra. En mér finst nú satt að segja síður en svo, að nefndarálitið bendi í þá átt, að nefndin hafi þurft að vera í nokkrum vafa. Eg sé ekki betur, en að þar sé fengnar æðimiklar upplýsingar um það, að hér sé einmitt um ærið skaðleg dýr að ræða.

Í nefndarálitinu er það haft eftir þrem fræðiritum eftir útlenda höfunda, að í fyrsta lagi sé hérar mjög skaðlegir fyrir sveitabændur (Landmandebogen). — Í öðru lagi, að þeir geta orðið mjög nærgöngulir á vetrum, engin girðing haldi þeim nema þéttriðin vírnet, og engin leið sé til að útrýma þeim, nema sú að skjóta þá.

Vér höfum nú verið að berjast við að eyða refum hér á landi í þúsund ár og hefir ekki tekist að útrýma þeim enn. Eg hygg, að hér gæti farið eins. — Í þriðja lagi er sagt, að hérar bíti nýgræðinginn í skóglendi og nagi börk af trjám í harðindum. Harðindi eru nú meiri hér á landi en víðast annarstaðar, svo að hætt er við að meira myndi bera á ágangi héranna hér, en t. d. í Danmörku og Noregi. Hér kemur vafalaust aldrei sá vetur, að ekki mundi þar kallaður harður, og samkvæmt því verða hérar nærgöngulir við skóga, naga börk af birki og reyni og allan nýgræðing á hverjum einasta vetri. Sagt er og að þeir fari í kálgarða á nóttum og éti kálið.

Eg hygg nú ekki vafa á því, að þetta sé alt skaðlegt, og að þar sem þessum þrem fræðiritum ber saman í þessu, — og önnur fræðirit hefir nefndin ekki haft með höndum — þá geti þingið talið þetta viðunandi upplýsingar til þess að friða samvizku sína, þótt það felli þetta frumv. Hitt get eg ekki skilið, að það fari að ganga þvert ofan í allar þessar upplýsingar og samþykkja nú frumvarpið, fyrr en það hefir fengið aðrar staðbetri, sem hrinda þessum. Ef það sannaðist einhverntíma, að gagnsemin af þessum dýrum væri mjög mikil, þá væri ætíð hægur hjá að leyfa innflutning á þeim síðar.

Þá hefir nefndin og borið þetta mál undir þann mann hérlendan, sem hún segir að varði þetta mest og hún hyggur, að bezt skynbragð beri á það, enda ætti helzt að vilja hlynna að skógleifum vorum, en það er skógræktarstjórinn, með því að hérar hafast mjög mikið við í skógum. Eg sé nú ekki betur, en hann kannist við það, að þessi dýr sé harla skaðleg skógræktinni, svo að þau geti jafnvel snarlega etið upp þessar litlu gróðrarstöðvar vorar, sem hann og fleiri hafa verið að basla við að koma upp síðasta áratuginn. En þó virðist svo, sem hann vilji bera í bætifláka fyrir dýr þessi. Hann segir, að hér sé ekki um ræktaðan skóg að gera nema einstöku gróðrarreiti. En er það ekki nóg? Eg sé ekki betur en að hérarnir mundu þá einmitt leggjast á þá og verða þeim því skæðari, sem þeir eru víðáttuminni.

En skógarvörðurinn kemur með þetta þjóðráð, að þar sem sé ekki nema um smásvæði að ræða, þá sé hægurinn hjá að girða þau með vírnetum! Það myndi þó kosta ekki all-lítið fé og auk þess mikið eftirlit. — Sama segir hann um kálgarðana, en hræddur er eg um, að bændum þætti það lítil búbót, að þurfa að fara að girða kálgarða sína með vírnetum.

Hér er um allvarhugavert atriði að ræða, og frá mínu sjónarmiði er það algerlega ótilhlýðilegt að samþykkja þetta frv. fyrr en fengnar eru nánari upplýsingar; hér þarf skýlausa vissu fyrir því, að hérarnir verði meir til gagna en tjóns, ef þingið á að stuðla að flutningi þeirra í landið.

Skógarvörðurinn fullyrðir, að hérarnir geri ekki mikið tjón í samanburði við sauðfé. Það er sjálfsagt rétt, en hvað sannar það ? Er það ekki öllum vitanlegt, að sauðféð, sem helmingur þjóðarinnar lifir á, gerir landinu einnig ómetanlegt gagn? En það, sem þessir góðu herrar, héramenn, eiga eftir að sanna, er það, hvort hérarnir geri ekki meiri skaða og það margfalt meiri en sauðkindin, móts við það gagn, sem hvori um sig gerir.

Þessi samanburður skógræktaratjórans er því algerlega marklaus. — Að öllu þessu athuguðu leyfi eg mér að leggja til, að málið verði felt við þessa umræðu.