10.08.1914
Efri deild: 36. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 31 í B-deild Alþingistíðinda. (1303)

78. mál, sjóvátrygging

Karl Finnbogason:

Saga þessa máls ætlar að verða eftirminnileg. Það hefir nú gengið í gegn um báðar deildir og varið í nefnd í báðum deildum, og þó hefir ekki tekist að gjöra það betur úr garði en þetta. Jeg ætla við þetta tækifæri ekki að tala um annað en brtt. þær, sem jeg nú hefi komið fram með til þess að reyna að bæta úr göllunum.

Jeg er þakklátur háttv. Nd. fyrir, að hún hefir tekið meira tillit til brtt. minna, en hjer var gjört, og jeg er þakklátur háttv. þm. Vestm. (K. E.) fyrir það, hvað hlýlega hann hefir nú tekið brtt. mínum. Það hefir áður verið breytt í mig ónotum fyrir þessar brtt., þær hafa verið nefndar flugur, sem flygju hjer um deildina og væri rjettast að merja þær undir nöglinni eins og lýs. En það sannast betur og betur, hversu rjettmæt slík ummæli eru. Því nú hefir heilbrigð skynsemi ráðið svo miklu í þinginu, að flestallar þær breytingar, sem jeg barðist fyrir meðan frv. var hjer til meðferðar, eru teknar til greina. — Brtt. mínar eru tvenns eðlis. Önnur tegund þeirra miðar að því, að nema burt meinloku, er gengið hefir gegn um alt frv. og ekki er horfin enn með öllu. Í 6. gr. er talað um að vátryggja „gegn“ háska, og kemur það fyrir á fjórum stöðum. Jeg hefi áður bent á, að þetta er hin mesta vitleysa, og tek það ekki aftur. Breytingartillögur mínar miða að því að nema þessa vitleysu burt. Háttv. þm. Vestm. (K. E.) sagði, að þetta væri að eins orðabreyting, en það er í rauninni efnisbreyting. — Hinar brtt. eru tvær, og hygg jeg að allir geti áttað sig á þeim. Þær eru sama eðlis og margar breytingar neðri deildar á frv., en þar hefir sjest yfir þetta. Frv. verður víst breytt hjer, svo það þarf aftur að fara til Nd. hvort sem er, og vona jeg því að háttvirt deild samþykki brtt. mínar. Það er til bóta og meinfangalaust.