04.07.1914
Efri deild: 3. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 33 í B-deild Alþingistíðinda. (1306)

37. mál, póstlög

Ráðherra (H. Hafstein) :

Eftir 16. gr. póstlaganna frá 16. nóv. 1907, ber póststjórnin eða landssjóður ábyrgð á öllum póstsendingum frá því að þær eru afhentar í póst og þangað til þær eru komnar í hendur viðtakendum, eða útlendum póststjórnum, eigi þær að fara til útlanda. Póstsjóður hjer ber nú ábyrgð, eigi einungis á því tjóni, er verður af völdum póstþjónanna, heldur einnig á tjóni, sem stafar af eldsvoða, skiptjóni og öðrum óviðráðanlegum orsökum (vis major). Hingað til hefir þetta eigi valdið landssjóði miklum kostnaði, því að hann hefir sætt sæmilegum kjörum um endurtryggingu, en nú er það fjelag, sem skift hefir verið við, bætt að taka ábyrgð á öðru en peningum, dýrum málmum og verðbrjefum, en á hinn bóginn er farið að senda í bögglapósti miklu meira af vörum, og þar á meðal mjög verðmætum bögglum, en áður hefir tíðkast. Þannig eru nú með hverju skipi dýrar kvikmyndasendingar o. fl., sem áður hefir eigi tíðkast. Tekjur póststjórnarinnar fyrir ábyrgð á póstsendingum eru mjög litlar. Eftir reglum alþjóðapóstsambandsins má ekki taka nema 20 37100 aura fyrir ábyrgð á hverjum 1000 kr. af verðmæti þeirra póstsendinga, sem sendar eru til nágrannalanda Danmerkur (Svíþjóðar og Þýskalands) og 36 11/100 aura til annara erlendra ríkja. Af hverjum 1000 kr af verðmæti þeirra sendinga, er fara til Danmerkur, fær póstsjóður 80 aura og50 aura innanlands. En ef póststjórnin vill endurvátryggja verður hún að greiða 2,50 kr. fyrir hverjar 1000 kr. innanlands, og 7 kr. 50 aura fyrir hverjar 1000 kr. til . útlanda. Það er því augljóst, að ábyrgðargjald það, sem landssjóður fær, er langt um of lítið fyrir jafn víðtæka ábyrgð sem nú er tekin. Með þeirri breytingu á póstlögunum, sem hjer er um að ræða, losnar póststjórnin við að ábyrgjast annað en það, að póstsendingar glatist ekki fyrir handvömm eða af völdum póststjórnarinnar eða póstþjónanna, en hún ábyrgist ekki, þótt póstsendingar farist af óviðráðanleg um atburðum (vis major). Þetta er eigi á móti ákvæðum alþjóðapóstsambandsins; enda mun jafn víðtæk ábyrgð, sem hjer hefir átt sjer stað, ekki tíðkast annars staðar, nema á Norðurlöndum. Stærstu ríkin ábyrgjast ekki gagnvart vis major fyrir póstábyrgðargjaldið. Jeg vona því að háttv. deild verði samdóma landsstjórninni um að rjett sje að takmarka ábyrgð landssjóðs á þann hátt, sem farið er fram á í þessu frumvarpi, einkum þar sem jafnframt er heimilað að gera undantekningu frá þessu ákvæði, þar sem sjerstakar ástæður liggja til.