13.07.1914
Efri deild: 7. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 35 í B-deild Alþingistíðinda. (1309)

37. mál, póstlög

Framsm. (Magnús Pjetursson):

Jeg vil í fyrsta lagi vekja athygli háttv. deildar á því, að þó að nefndarálitið í þessu máli sje ekki langt, þá eru í því 3 prentvillur, sem í sjálfu sjer eru skaðlausar.

Eins og nefndarálitið ber með sjer, þá leggur nefndin það til, að frumvarpið verði samþykt óbreytt. Nefndin var þó ekki alls kostar ánægð með frv., því að okkur þótti það ekki rjett, að ábyrgðarbrjef, peningabrjef, peningasendingar o. s. frv., yrðu ekki trygð jafnt hjer eftir sem hingað til, enda lítur svo út af athugasemdunum við frumvarpið, að því sje aðallega beint að böggulsendingum. Nefndinni virtist svo, að það gæti komið mönnum illa, að geta ekki trygt þær sendingar, er jeg nefndi áður. Nefndin átti því tal um þetta við póstmeistara, og þótti honum rjettara að að láta frumvarpið haldast óbreytt, en lýsti jafnframt yfir því, að þegar lögin gengju í gildi, mundi stjórnin semja reglugjörð, þar sem undanteknar væru þær sendingar, sem taldar væru upp í nefndarálitinu, nefnilega: verðmæt skjöl, víxlar, ávísanir, vaxtamiðar, peningar, dýrir málmar, gimsteinar og perlur. Fanst nefndinni þessi orð póstmeistara næg trygging fyrir því, að slík reglugjörð yrði gefin út, og fjell hún því frá að setja það í lögin, enda áleit póstmeistari það lakara, þar eð fjelag það, sem þessar sendingar eru nú trygðar hjá, gæti ef til vill alt í einu kipt að sjer hendinni, eða hækkað tryggingargjaldið að miklum mun, og væri þá ilt að landssjóður væri eftir sem áður ábyrgðarskyldur. Væru fyrgreindar undantekningar settar í lögin sjálf, þá gæti orðið erfiðleikum bundið að fá þær teknar þaðan aftur, en sjeu þær ákveðnar með reglugjörð, er ávalt hægt að nema þær úr gildi. Annars ætla jeg ekki að fjölyrða frekara um frumvarpið, en vona að háttvirt deild samþykki það óbreytt.