22.07.1914
Efri deild: 15. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 37 í B-deild Alþingistíðinda. (1317)

77. mál, notkun bifreiða

Framsögumaður (Guðm. Björnsson) :

Það er hvorttveggja, að bifreiðar eru nýjung hjer á landi, enda er frumvarp þetta sannkallað nýmæli. Nefndinni var því ljóst, að háttv. þm. mundi erfitt að glöggva sig á svo ókunnu máli, og ljet því einkis ófreistað til þess að búa málið svo úr garði, að það yrði mönnum ljósara en áður. Þess vegna ljet hún það vera sitt fyrsta verk, að kynna sjer bifreiðalög annara þjóða, og komst hún að raun um, að viðlíka ákvæði og í stj.frv., ganga um öll lönd og eru gildandi lög. Það eru að skapast sameiginleg alþjóðalög um þetta nýja, merkilega samgöngufæri. Enda er það fullskiljanlegt, því að oft fara menn í bifreiðum land úr landi, og er þá þægilegt að mega aka vagni eftir einum lögum, hvar sem maður er staddar.

Norðurálfuþjóðirnar virðast þegar hafa komið sjer saman um, án skrafs og ráðagerðar, að hafa ein lög um þetta efni.

Nefndin kynti sjer sjerstaklega lög Dana og Norðmanna um bifreiðar. Þær tvær þjóðir byggja ólík lönd, önnur býr í hálendi, hin á láglendi, en þó eru bifreiðarlög beggja nálega samhljóða. Stjórnarfrv. mun aðallega tekið úr norskum lögum.

Um bifreiðar hefir verið þrefað og þráttað, síðan þær komu til sögunnar. En þau almennu ákvæði, sem nú hafa fest rætur í lögum flestra Evrópuþjóða, eru ávöxtur reynslunnar. Þau eru jafngild í einu landi sem öðru. Hitt varð oss nefndarmönnum íhugunarefni, hvort eigi mundi þörf á einhverri viðbót við þau, vegna einstakra landshátta hjer. Oss var kunnugt, að sumir litu hornauga til bifreiðanna, og að fram höfðu komið kvartanir um þær, svo að vjer töldum oss skylt að rannsaka málið til róta. Nefndarálitið sýnir, á hvern hátt vjer höfum gjört það.

Tvær eru kærurnar, sem aðallegu eru hafðar á bifreiðarnar. — Önnur er sú, að þær fæli hesta, svo að slys geti hlotist af, meiðsl á mönnum, en skemdir á flutningi. Hin er sú, að þær spilli vegum. Báðar sakagiftirnar væru þungar, ef sannar væru.

Nefndin vonast nú til, að háttv. Ed. muni sjá af ferðaskýrslu hennar, að kærurnar eru ekki á rökum bygðar. Almenningur hefir ýkt og öfgað um bifreiðahættuna. Daginn sem vjer, nefndarmenn, fórum austur um fjall, var fádæma troðningur á veginum, á þriðja hundrað vagna og þaðan af fleiri hestar. En hvernig fór? Á allri leiðinni vildi til eitt „slys“: að hestur sleit sig aftan úr, og var það þó að kenna klaufaskap þess, er teymdi lestina. Oss virðist því auðsætt, að manna og muna háskinn af bifreiðunum sje ekki nema ímyndun ein og hjegómi.

Og sama er að segja um hina sakargiftina, að bifreiðarnar spilli vegum. Um það efni nægir væntanlega að vísa til nefndarálitsins. Það eru ekki þessi ljettu og hjóllipru akfæri, sem vegunum stendur háski af. Það eru kerrurnar, þungar og luralegar, sem mest vegapjöll vinna.

Nefndin hefir því orðið á eitt mál sátt um það, að hjer á landi sje engin þörf á strangari ákvæðum um bifreiðar en í öðrum löndum. Stjórnarfrv. miðast við viðlíka bifreiðar, sem nú tíðkast hjer, og reisir enda skorður við því, að mjög þungar bifreiðar verði notaðar hjer.

En jeg vil endurtaka það, sem segir í nefndarálitinu, að það eru ekki bifreiðarnar, sem hjer eru mestir vágestir á vegum. Sjálfum vegunum er ábótavant, og umferðinni um þá þarf að koma í miklu betra horf en nú. Hún er nú í ófæru ólagi, sem þarf að leiðrjettast. En það mun ekki tjá að fara frekar út í þá sálma að þessu sinni.

Nefndin leggur því til, að stjórnarfrv. verði samþykt með örfáum breytingum. 1. brtt. við 2. gr. er lítilsháttar og þarf engra orða við. 2. brtt. er við 3. gr. Jeg get hugsað að mönnum sje ekki fullljóst, hvað meint sje með seinni lið þeirrar brtt. öllum bifreiðum eru tveir hemlar, og á annar að geta stöðvað vagninn ef hann fer áfram, en hinn ef hann fer aftur á bak. En vegir hjer eru svo brattir, að varhugavert er að hafa að eins tvo hemla. Varahemill er nauðsynlegur, og þess vegna er brtt. gjörð. Enda hafa bifreiðarnar hjer þenna útbúnað; í „Ford“-bifreiðunum eru t. d. tveir stighemlar og handhemill að auki. — Við 4. gr. er brtt. í tveimur liðum. Hin fyrri ákveður, hvar merki skuli setja á vagn, — að það skuli setjast aftan á hann, eins og tíðkast í öðrum löndum og bifreiðafjelögin hjer hafa gjört. Seinni liðurinn er lítilsverður, og svo auðskilinn, að ekki þarf að eyða orðum að. — Næst er brtt. við 5. gr. Nefndin hefir komið fram með hana vegna þess, að það er sannreynt í öðrum löndum, að slys hljótast lang oftast af þeim bifreiðum, sem eru eign einstakra manna. Enda er það auðskiljanlegt, því að ökumenn bifreiðafjelaganna hafa tvöfalt aðhald : landslögin og hagsmuni fjelagsins. Bifreiðafjelögin hjer hafa sett ökumönnum sínum mjög strangar reglur. Og sjálfsagt væri meiri ástæða til að heimta hærri aldur og ítarlegri tryggingu af ökumönnum einstakra manna en af ökumönnum einstakra fjelaga. 5. brtt. er við 7. gr. Fyrri liður hennar er orðabreyting, sem öllum mun vera ljóst að sje til bóta. Seinni liðurinn tekur fram, að vegfarendur hafi einnig nokkrar skyldur við bifreiðarnar. Nefndinni þótti nauðsynlegt, að skjóta þessari viðbót inn í frv., því að óregla og ókurteisi þeirra, sem um veginn fara, er oft dæmafá. Jeg þekki það sjálfur af eigin raun, að menn gjöra hjer oft farartálma á vegum af kerskni og strákskap, og gjalda svo oft ónota svör við hæverskum tilmælum, ef um það er vandað. — Þá hefir nefndin viljað breyta 11. gr. nokkuð. Stjórnarfrv. vill leyfa, að ökumaður á tvíhjóla bifreiðum og þríhjóla, sem að eins eru ætlaðar einum manni, sje ekki eldri en 15 ára. En slíkar bifreiðar munu vera mest notaður í bæjum, og þar er hættan mest á slysum. Nefndin vill því fella þetta ákvæði burt. — Brtt. við 13. gr. fer í þá átt, að ljetta nokkuð ábyrgðarhlut ökumannsins. Ef hann hefir sýnt alla þá aðgæslu og varkárni, sem honum ber, virðist hann eiga að vera sýkn saka, þótt slys vilji til.

Að svo mæltu vil jeg láta í ljós þá von nefndarinnar, að háttv. deild greiði á sem bestan hátt fyrir þessu frumvarpi. Bifreiðar virðast geta komið að ágætum notum hjer á landi. Þær tíðkast nú þegar talsvert, og er það ólýgnasti votturinn um, að þær muni eiga framtíð hjer. Það mundi því vera ilt verk, að reyna að tefja fyrir þessari merkilegu nýjung. Nefndinni er kunnugt um, að bifreiðaeigendur hjer hafa í hyggju að fá vátryggingu á bifreiðum sínum, ef þess verður kostur. Þess vegna er mikilsvert fyrir þá, að hjerlend bifreiðalög sjeu góð og sanngjörn, því að vátryggingin nær ekki eingöngu til skemda á bifreiðum, heldur einnig til skaðabóta fyrir slys.

Jeg vona, að nú hafi jeg reift málið svo, að það sje öllum ljóst, þó það sje nýtt og áður óþekt hjer á landi.