30.07.1914
Neðri deild: 25. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 163 í B-deild Alþingistíðinda. (132)

89. mál, friðun héra

Hannes Hafstein :

Eg er sannfærður um, að þeim manni, sem hefir boðist til að gefa héra til innflutnings í landið, þætti mjög leitt, að hann skyldi hafa verið að skifta sér af þessu, ef hann vissi, að menn hér áliti það til ills. Hann bauð þetta af góðum huga og hefir ekki dottið í hug, að menn mundu álíta hérana þá skaðræðisgripi, eins og gert er á þessu þingi.

Annarstaðar eru hérar stranglega friðaðir, t. d. í Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Þýzkalandi og að eins lítinn tíma ársins leyft að skjóta þá, svo að þessi mikla hræðsla, sem hér bólar á, virðist ekki hafa fest djúpar rætur í þessum löndum. Mig brestur að vísu þekkingu til að dæma um, hvort þeir geti gert nokkurn skaða, en eftir mínu litla viti getur í öllu falli ekki verið hætt við að sá skaði geti orðið ýkja mikill. Hér er svo mikið landrými, að hérarnir þurfa ekki þrengslanna vegna að ásælast mannabýlin, og náttúra þeirra mun kenna þeim að reyna að halda sér utan bygðanna eftir megni, því að þeir eru, eins og kunnugt er, mjög styggir og hræddir, svo að það er orðið að almennu máltæki, þegar einhver sýnir af sér mikla, ástæðulausa hræðslu, að segja að hann sé »hræddur eins og héri«.

Um sumartímann, þegar jarðargróður er í blóma, leita þeir vafalaust til fjallanna og sjást ekki í bygðum, en þó að þeir á vetrum leituðu niður til bygðanna, eins og rjúpan, þá mundu þeir varla geta valdið miklum skemdum, því að ekki er þar svo fjölskrúðugt af aldingörðum né skógarprýði, að eftir miklu sé að seilast af slíku heima við bæina; menn hafa ekki verið svo áfjáðir hingað til, að rækta skóg né skrauttré í kring um híbýli sín.

Engin kálgarðshola mundi að vetrarlagi bíða neinn baga af því, þótt einhver veslings héri þefaði þar um frosin beðin. Hérinn er alment talinn afarmeinlaust dýr, sem þar að auki er gott átu og þykir því víðast búbót fremur en hitt. Hingað til hefir það verið ósk alþingis, að fjölga fremur dýrategundum í landinu, en fækka þeim, eins og öll friðunarlög landsins votta. Eg held, að það sé alt of mikil hérahræðsla, að halda að landauðn stafi af því, að þessi litla og ómannýga skepna flytjist hingað. Hreindýr hafa verið flutt hingað og friðuð og þingið hefir veitt stóra upphæð til að flytja inn ramefld moskusnaut, þó nærri megi geta, að meiri ástæða getur verið hjartveikum mönnum að hræðast þau, heldur en veslings hérana. Þau hafa reyndar ekki verið flutt inn ennþá, en þingið hefir sýnt vilja sinn í því efni, með því að bjóða fram 10 þúsund krónur hér um árið til að fá þau.

Eins og eg sagði í upphafi, er eg sannfærður um, að þennan mann, sem bauðst til að gefa hérana, langar ekki til að troða þeim upp á landið í óþökk landsmanna. Hann hélt að þetta boð sitt yrði vel þegið, og ef þingið vill ekki þiggja það nú, er engin hætta á, að hann bjóði það aftur, eða flytji hérana inn án þeirra friðunarákvæða, sem eru nauðsynlegt skilyrði fyrir tímgun þeirra fyrst í stað. (Benedikt Sveinsson: Þessi maður á víst ekki alla héra heimsins, svo að Íslendingar verða varla í stór-vandræðum að útvega þá seinna, ef þeir verða sannfærðir um, að gagn sé að innflutningi þessara dýra).