08.08.1914
Efri deild: 35. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 42 í B-deild Alþingistíðinda. (1323)

77. mál, notkun bifreiða

Framsögumaður (Guðm. Björnsson) :

Herra forseti! Háttv. Nd, hefir gert fáeinar breytingar á þessu frv., engar verulegar efnisbreytingar.

Breytingarnar eru þessar:

Nokkrar orðabreytingar á 4. gr. og sú ein efnisbreyting, að orðin „á kostnað eiganda“ eru viðbót, svo að nú getur lögreglustjóri, hvenær sem honum þykir ástæða til, látið fara fram skoðun á bifreiðum á kostnað eigenda. Í 5. gr. er hert á aldurstakmarkinu, færi úr 18 árum upp í 21 ár. Í 7. gr. er ein lítil orðabreyting. Í 9, gr. eru feld burtu orðin „ef krafist er“. Þá er viðbót við 7, gr. svohljóðandi : „Ef ferðamenn með hlaðna vagna hafa neyðst til að víkja út af vegi fyrir bifreið, skal bifreiðarstjóri veita liðsinni sitt, ef þörf gjörist, til að koma vögnunum aftur á veginn“. Þetta eru allar breytingarnar, og nefndin var þegar einhuga um það, að leggja til, að frv. yrði samþykt óbreytt

Þetta og þvílíkt er hversdagsviðburður, að frumvörp koma til einnar umræðu og nefndin þá sammála, vill samþykkja það óbreytt, en þingsköpin heimta samt nýtt nefndarálit og síðan tveggja nátta frest, áður en til umræðu komi. Undir þinglausnir rignir niður þessum örstuttu, efnislausu og óþörfu nefndarálitum. Þetta ákvæði þingskapanna veldur óþarfa töfum. Þess vegna höfum vjer nú í þessu máli í fyrsta sinni beiðst afbrigða frá þessu ákvæði þingskapa, og teljum vert að veita þeirri nýbreytni fulla athygli, með því að nú er í ráði að breyta þingsköpunum.