30.07.1914
Neðri deild: 25. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 165 í B-deild Alþingistíðinda. (133)

89. mál, friðun héra

Guðmundur Hannesson:

Eg kannast fyllilega við, að það sé eðlilegt að þær athugasemdir komi fram, sem háttv. þm. N.-Þing. (B. Sv.) kom með. En hann mintist ekki á neitt atriði, og ekki heldur háttv. 2. þm. Árn. (E. A.), sem nefndinni væri ekki fyllilega ljóst. Að svo miklu leyti var dómur nefndarinnar um frv. á rökum bygður, að hann var ekki feldur án þess að taka tillit til kosta og ókosta þess, þó að nefndin gæti ekki beinlínis mælt með því.

Háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) tók mikið fram af því, sem eg vildi sagt hafa. Á sumrum er langlíklegast að hérarnir haldi sig í óbygðum, því að þeir eru ekki gjarnan á mannafæri, ef þeir eiga annars kost. Á vetrum hvarfla þeir svo til bygðanna og halda sig ef til vill í grend við bæina, en ekki hygg eg, að mönnum stafi nein veruleg hætta af þeim, og ekki heldur hvað skógana snertir. (Einar Arnórsson : Það stafar þó ekki mannhætta af þeim!). Að vísu stendur ekki lífi manna hætta af þeim,

en eignir manna gæti ef til vildi verið í hættu. Þó held eg að þeir geti lítið eða ekkert tjón gert við bæina, og um það er eg ekki í neinum vafa, að lítið bizt af skógum okkar af hérunum í samanburði við það, sem aðrar skepnur okkar bita þá. Eitt held eg að fullyrða megi : Það er alla ekki hægt að fá nægilegar upplýsingar til að byggja á, hvað mikinn skaða hérarnir geri. Það má þó telja áreiðanlegt, að þeir geri einhvern skaða, en ekki mikinn, og að líkindum miklu minni en menn ætla. Meginástæða nefndarinnar er þessi: Í öllum nágrannalöndum okkar eru hérar, og engum okkar hefir borist til eyrna að þar hafi verið talað um að útrýma þeim. Okkur þótti samvizkusamlegra að tilfæra alt, sem við vissum, til athugunar fyrir þingið, og eg held að við þurfum ekki að gera okkur vonir um, að það fáist nokkurntíma upplýsingar fram yfir þær, sem deildin hefir nú. Menn kunna að segja, af því að þessum dýrum fjölgar nokkuð ört, að svo gæti farið, að þau yrði að landplágu. En því er fljótsvarað: Hérarnir eiga örðugra uppdráttar hér heldur en annars staðar, og þeim fjölgar miklu minna en menn skyldu ætla, vegna þess hve fljótt þeir æxlast. Ungarnir eru viðkvæmir og þola illa veðurhörkur, og auk þess verða þeir öðrum dýrum að bráð. Það var einu sinni sagt, að hérar hefði verið í Vestmannaeyjum, og þótt gera þar mikinn skaða, og því hefði verið gengið að því með oddi og egg að útrýma þeim. Eg hefi spurt fræðimann einn um þetta, og sagði hann, að það myndi ekki hafa verið hérar, heldur kanínur, og er það skiljanlegra, því að þær eru þektar að því að fara illa með jarðveginn. Þetta tilfærðum víð af samvizkusemi, en töldum það annars ekki neina hættu. Og okkur hefði ekki dottið í hug að leggja til, að þetta frv. yrði samþykt, ef við hefðum haft ástæðu til að halda, að af því hlytist hætta fyrir bændur og búalið.