05.08.1914
Efri deild: 32. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 50 í B-deild Alþingistíðinda. (1345)

89. mál, friðun héra

Jósef Björnsson:

Það má segja með fullum rjetti um þetta mál, að það sje ekki nema smámál. Það virðist undarlegt, hve miklar umræður hafa orðið um það, bæði hjer og í Nd., að það væri hættulegt, að þetta frumvarp næði fram að ganga. Menn hafa talið sennilegt að hjerarnir gjörðu stórskaða, ef þeir ílendust hjer, Jeg verð að ætla, að þetta sje ekki á nægum rökum bygt. Þótt það kynni að koma fyrir, að einn hjeri eða svo kæmist í garða og nagaði þar eitthvað, verður að telja slíkan skaða svo lítilfjörlegan, að ekki sje ástæða til að óttast hann. Hitt er meira um vert, hvort þeir gjöra tjón á skógi eða hríslandi Jeg hefi enga trú á, áð svo mikið kveði að slíku, að það sje takandi til greina. Jeg held, að engin hætta sje á, að þetta dýr baki landsmönnum mikið tjón. Hví má ekki gera tilraun til að vita, hvort dýr þetta getur lifað hjer eða ekki. Hitt get jeg aftur verið efins um, hvort hinir löngu vetrar hjer á landi, snjóalög og harðindi, mundu ekki gjöra það að verkum, að dýr þetta geti ekki lifað hjer og þrifist. Ekki er þó ómögulegt, að svo reyndist, að þeir geti lifað hjer. Jeg held því, að rjett sje, úr því að útlendingur einn er fús á að gjöra tilraun með að flytja hjera hingað, — að leyfa, að þeir eigi hjer friðland. Hann er að mínu áliti ekki nema hugarburður, þessi mikli ótti við að þeir skemmi skóga og kálgarða. Og vart mun þurfa að óttast, að þeim fjölgi svo, að ástæða verði til að friða skóga með sjerstökum girðingum vegna þeirra. Það væri frekar ástæða ti1 að friða skóga okkar og garða fyrir þeim skepnum, sem við höfum. Búpeningur okkar gjörir oft talsverðan usla í görðum, af því þeir eru ekki nógu vel varðir, og sá skaði, sem hjerarnar kynnu einstöku sinnum að gjöra, mundi verða smáræði hjá því, sem fyrir kemur af öðrum orsökum.