30.07.1914
Neðri deild: 25. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 169 í B-deild Alþingistíðinda. (135)

89. mál, friðun héra

Guðm. Eggerz:

Eftir ræðum sumra manna í dag er svo að heyra, að mönnum sé ekki vel ljóst, hver dýr sé um að ræða. Sumir virðast halda, að hérar sé kettir, eða jafnvel kálfar. Þvílíkar fjarstæður er undarlegt að heyra af vörum þingmanna.

Eins og kunnugt er, eru hérar bæði í Danmörku og Færeyjum. Til Færeyja eru þeir nýkomnir, og eru eyjarskeggjar mjög ánægðir með að hafa fengið þá.

Mér er kunnugt um það, að í Jótlandi, þar sem eg hefi verið nokkur ár, eru allir ánægðir með það, að hérar sé friðaðir, sem mig minnir að sé á tímabilinu frá því í ágúst og þangað til á aðfangadagskvöld.

Háttv. þingm. N.-Þing. (B. Sv.) líkti hérunum við tóur. Þetta er mjög fáránleg samlíking. Tóur eru styggar og slægar. Hérar eru stundum styggir, stundum spakir. En þeir eru samlitir jörðinni, svo að ilt er að sjá þá.

Að hérar geti valdið skemdum á kálgörðum hér, það tel eg alveg útilokað. gálgarðar eru oftast við bæi, en á hverjum bæ hér er hundur, og ekkert eru hérar hræddari við en hunda, og hundar ekki í annað sólgnari en að elta héra. Mér er kunnugt um það, að á akurhænsaveiðum hlaupa hundarnir oft frá, ef þeir finna lykt af héra, og verður ekki hægt að hafa gagn af þeim.

Háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) heldur því fram, að hérar grafi sig inn í kálgarða. Ekki held eg að hann gæti orðið doktor í hérafræði. Hérar liggja oft í kálgörðum, en aldrei þegar regn er, því að vætuna er þeim illa við; þeir þola ekki, að vot kálblöðin strjúkist um bökin á þeim. Eins er um tóur, að í regni eru þær aldrei í skógum. Eg er hræddur um, að háttv. þm. (E. A.) hafi blandað saman kanínum og hérum. Kanínur grafa sig í jörð, en hérar grafa aldrei.

Háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) sagði, að skinnin af hérunum mundu vera einhvers virði. En svo er ekki, að minsta kosti ekki skinn af hérategund þeirri, sem er í Danmörku. En hérar þykja góðir til matar og eru í Danmörku seldir á 2–4 kr. stykkið. Bændur í Danmörku hafa mikið gagn af að leigja land til héraveiða. Eg hefi sjálfur tekið þar land á leigu til héraveiða. Það var ekki meira en svo sem 20 mínútna gangur á langveginn, en 10–15 mín. á þverveginn. Fyrir það varð eg að gjalda 40 kr. í leigu. En veiðin varð 2–3 hérar, 20–30 akurhæns og fáeinar lóur.

Ekki veit eg hvaða matsöluhús það hefir verið, þar sem háttv. þm. Dal. (B. J.) hefir fengið kattakjöt að eta fyrir hérakjöt, en fullyrða má eg, að ekki hefir það verið 1. klassa hótel.

Eg legg til, að vér tökum þessu boði þakksamlega. Eg hefi heyrt marga bæði á Austurlandi og Vesturlandi minnast á, að það væri undarlegt, að vér skyldum ekki hafa sýnt þá framtakssemi að flytja hingað héra, úr því að Færeyingar hafa flutt þá til sín og eru ánægðir með.

Háttv. þm. N.-Þing. (B. Sv.) telur það ónáttúrlegt hjá héragreyjunum að þeir bíta gras og kál. Á sama hátt ætti hérunum að þykja það ónáttúra hjá háttvirtum þm. að hann etur baunir og graut.