07.08.1914
Efri deild: 34. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 71 í B-deild Alþingistíðinda. (1356)

89. mál, friðun héra

Jósef Björnsson:

Háttv. 5. kgk. (B. Þ.) sagði, að þegar hann hefði komið til útlanda, hefði hann ekki sjeð neitt, sem sjer hefði þótt fegurra en skógarnir. Mjer þykir þetta mjög trúlegt. En hann sagði enn fremur, að við ættum að velja á milli hjeranna og skóganna, nema við settum himinháar girðingar utan um skógarsvæðin. Jeg hefi sjálfur tekið þátt í að gróðursetja skóg í Noregi á ógirtum svæðum — óvörðum fyrir hjerum — og hefi svo sjeð sama skóginn aftur að 20 árum liðnum, þá orðinn vel þroskaðan eftir aldri, án þess að hjerarnir hafi valdið neinum sýnilegum skemdum á hinum ungu trjám. Hjerar eru þó vitanlega til í Noregi. Jeg trúi því ekki að við eigum að velja á milli hjeranna og skóganna, þótt nokkrir hjerar verði fluttir inn í landið. Og jeg held að við mundum ekki vilja missa hjerana fremur en aðrir, ef við hefðum þá.