07.08.1914
Efri deild: 34. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 75 í B-deild Alþingistíðinda. (1364)

91. mál, strandgæsla

Guðm. Björnsson:

Af því að jeg hefi farið víða um landið og talað við ýmsa glögga og greinda menn, þar sem sandfok er, ætla jeg að láta í ljós álit mitt á þessu máli.

Jeg skal þegar geta þess, að jeg fagna frv. og vona að það verði samþykt, því að jeg tel það til mikilla bóta.

Menn greinir á um, hvort betra sje að láta Búnaðarfjelag Íslands eða skógræktarstjórann annast sandgræðsluna. Jeg hygg að hún sje best komin í höndum Búnaðarfjelagsins. Hefting sandfoks hjer á landi er hið mesta vandamál, sem danskur skógræktarfræðingur veit ekki eins vel skyn á og greindur bóndi í sandfokssveit. (Júl. H.: Er ekki sandfok í Danmörku?) Það er öðruvísi í Danmörku. Mjer skilst svo, sem margir ætli, að hefting sandfoks eigi eingöngu að gjörast með gróðursetningu jurta og viðarteinunga. En það er síður en svo. Hjer á margt annað við. Það sem jeg hefi fyrir mjer í þessu, hefi jeg frá Eyjólfi Guðmundssyni í Hvammi, sem manna best hefir vit á því máli og mesta reynslu. Hann býr í sandfokssveit, þeirri sveit, sem stafar mest hætta af sandfoki, og hann hefir varið sveitina sína fyrir sandbyljunum, staðið í því stríði allan sinn búskap og getið sjer fegursta orðstír fyrir óþreytandi elju og dugnað. Jeg hefi farið víða þar um austursveitir, seinast í fyrra. Og mjer hefir þótt ægilegt á að líta þær aðfarir. Ef ekki tekst að hefta herferð sandsins niður Landsveitina, sje jeg ekki annað en að alt Landið, alla leið niður að sjó, hljóti smámsaman að blása upp. Það sem best stöðvar sandfokið er ekki melgras eða þ. u. l., heldur garðar, en þó einkum vatnsrásir. Greindum mönnum þar eystra var það ljóst, að ekkert ráð mundi gagna þar eins vel og ef hægt væri að taka upp kvísl úr Þjórsá og veita austur í Rangá fyrir ofan bygðina á Landinu.

Jeg hygg því, að það sje viturlegast að fela mál þetta umsjá Búnaðarfjelagsins. Það hefir kunnáttumenn í ýmsum greinum í þjónustu sinni, sem hjer kunna góð ráð til að leggja, hver á sína vísu.