30.07.1914
Neðri deild: 25. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 172 í B-deild Alþingistíðinda. (137)

89. mál, friðun héra

Hannes Hafstein :

Mér heyrist, að ýmsir háttv. þingmenn haldi, að óleyfilegt sé að lögum, að flytja héra hingað til lands. Þetta er misskilningur. Allir mega flytja inn héra, án nokkura leyfis. Hér er spurningin um það eitt, hvort hérar, sem boðist er til að gefa landinu, eigi að vera friðaðir fyrst í stað, eða ófriðhelgir frá upphafi. Og eg verð að segja, að það væri nýstárlegt af þessu háttv. þingi, sem frægt er orðið sérstaklega fyrir friðanalög sín, þingi, sem hefir friðað rándýr eins og seli, friðað ránfugla, eins og erni og auk þess »alla titlinga«, ef það nú vildi neita veslings hérunum um allan frið og grið.

Eg vil biðja menn að líta sem snöggvast á málið frá dálítið annari hlið, án nokkurrar óvildar eða fylgis við hérana. Setjum svo, að hérar væri orðnir ílendir hér, að vér hefðum verið eins hepnir og frændur vorir í Færeyjum, að hafa haft hér talsverða héraveiði, og bragðað hið ágæta og ljúffenga hérakjöt. Setjum, að svo kæmi fram lagafrumvarp hér á þingi um það, að friða hérana um stund eða tíma ára, af því að ella væri hætta á að þeim yrði útrýmt. Hvað mundi þingið gera? Eg er sannfærður um, að hver einasti maður á þingmannabekk mundi hiklaust greiða atkvæði með friðunarfrumvarpi. Það sem hér liggur fyrir, er í eðli sínu að eins friðunarfrumvarp, heimild til friðunar fyrst um sinn; um annað þarf ekki að biðja. Hvern mun gerir það þá, þótt friðunarinnar sé beiðst fyrirfram? Eg er viss um, að þingið hefir friðað mikinn fjölda dýra, sem minna gagn er að friða. Enda mun vera svo í öllum siðuðum löndum, sem eru svo heppin að hérar eru þar, þá eru þeir friðaðir að einhverju leyti, eins og eg hefi áður drepið á.

Háttv. þm. N.-Þing. (B. Sv.) virtist skilja svo orð mín, sem enginn annar maður ætti ráð á hérum en þessi maður, sem gert hefir oss þetta boð. Þetta er mikill misskilningur. En hitt er víst, að hann er sá eini, sem boðist hefir til að bera kostnaðinn við þessa tilraun, hvort hérar þrífist hér, gefa skepnurnar og láta flytja þær hingað, og koma þeim fyrir í landinu á sinn kostnað. Mér skilst, að vér sitjum hér á rökstólum um það, hvort vér viljum þiggja boðið eða ekki. Vér ráðum auðvitað sjálfir hverju vér svörum. En ekki þurfum vér að stríða við slíkt tilboð frá sama manni á næsta þingi, ef vér fellum þetta frumv. nú. Það var það, sem eg sagði, og háttv. þm. N.-Þing. (B. Sv.) »misskildi«. Hér er eiginlega ekki um stórmál að ræða. En að minni hyggju eitt af skringilegri afrekum þessa þings, ef það feldi þetta frumv., án þess einusinni að þakka manninum fyrir vingjarnlegt boð.

Í tillögunni til rökstuddrar dagskrár, sem fram er komin, bólar ekki á neinu þakklæti fyrir boðið, öllu fremur þvert á móti.