13.08.1914
Efri deild: 35. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 79 í B-deild Alþingistíðinda. (1371)

91. mál, strandgæsla

Framsögum. (Jósef Björnsson):

Jeg tók það fram í byrjun ræðu minnar við síðustu umræðu, að það mundu vera skiftar skoðanir um það, hvort breytingar háttv. neðri deildar á stjórnarfrumvarpinu væru til bóta. Það kom og greinilega fram, í umræðunum hjer í deild, að svo er.

Ástæður þær, sem færðar voru fram gegn breytingum háttv. Nd., voru tvær. Fyrri ástæðan var sú, að Búnaðarfjelagið mundi ekki hafa neinum manni á að skipa, sem væri jafn fær um að standa fyrir sandgræðslustarfinu eins og skógfræðingurinn.

Jeg benti þá á, að þessi ummæli væru ekki á fullum rökum bygð að því leyti, að svo framarlega sem Búnaðarfjelagið hefði ekki slíkan mann nú, þá ætti það að útvega sjer hann, og mundi geta útvegað hann. Þetta mál er að mínu áliti búnaðarmál, og því heyrir það í raun rjettri undir Búnaðarfjelagið. Skal jeg nú gjöra nokkra grein fyrir því, hví jeg lít svo á.

Sandgræðslan getur farið fram á ýmsan veg; hún getur verið framkvæmd með vatnsveitingum, með girðingum, smærri og stærri, með þakning, með hrísi, lyngi eða torfi. Á sumum stóðum getur hún og verið framkvæmd með sáning. Alt þetta er óneitanlega eftir eðli sínu búnaðarstörf. Þá getur og sandgræðslan verið framkvæmd með plöntun mels og annara heftijurta, eða með skógarplöntun. Að því er þetta síðasta snertir, er hún að sjálfsögðu skógræktarmál.

Hin ástæðan, sem færð var gegn breytingu háttv. Nd., var sú, að hjer væri verið að demba starfi á herðar fjelags, sem væri „privat“-fjelag. Það er satt, að það má líta svo á, að fjelagið væri „prívat“ fjelag, þrátt fyrir miklar fjárveitingar til þess úr landssjóði og þrátt fyrir ýmsa aðra afstöðu þess, sem gjörir það að verkum, að því er talsvert öðruvísi varið en öðrum „privat“fjelögum. Það er einmitt þetta, sem nú kom mjer sjerstaklega til að taka til máls.

Jeg hefi bent á það, að ekkert virtist á móti því, að Búnaðarfjelagið tæki að sjer störf lík því, sem hjer er um að ræða. En þá finst mjer, að líka þurfi að hunsa fyrir því, að afstöðu þess gagnvart þingi og stjórn sje breytt.

Til þess að Búnaðarfjelagið geti orðið það, sem fyrir mjer vakir, að það eigi að verða, sjálfsagður ráðunautur landstjórnarinnar í öllum búnaðarmálum, þá lít jeg svo á, að eðlilegt sje, að landsstjórnin hafi rjett til að skipa stjórn fjelagsins að meira eða minna leyti, og með því hafa nokkur áhrif á með hve miklum velhæfum starfskröftum fjelagið starfar. Og jafnframt ætti sú skylda að hvíla á fjelaginu, að aðstoða stjórnina í þeim málum, er búnað snerta.

Ef þetta kæmist á, þá er fjelagið orðið hinn sjálfsagði ráðunautur stjórnarinnar í búnaðarmálum, sem það á að vera. Og engin stofnun getur verið betur til þess fallin en einmitt búnaðarfjelag alls landsins, að leggja á holl ráð í búnaðarmálum og leysa vel af hendi margskonar búnaðarstörf. Það hefir betri tök á að vita um þarfir og óskir bænda en aðrir; það stendur í sambandi við búnaðarfjelög út um land og við einstaka fjelagsmenn, og það hefir við hlið sjer þing kosið af landsmönnum, hið svokallaða búnaðarþing.

Það (Búnaðarfjelagið) hefir því góð tök á að safna saman þeirri búnaðarreynslu, sem til er í landinu. Það getur látið ræða málinu í einstökum sveitum, í búnaðarsamhöndum og loks á sjálfu búnaðarþinginu, og ef stjórn búnaðarfjelagsins er þá vel skipuð og situr inni með góða búnaðarþekkingu, eins og þarf að vera, og er skyldug til að vera landsstjórninni til aðstoðar og ráðagjörða, þá er enginn vafi á, að stigið væri spor í rjetta átt með slíku fyrirkomulagi, og þá ætti ekki að þurfa að heyrast þau orð hjer á þingi, að rangt sje að fá Búnaðarfjelagi Íslands sandgræðsluna í hendur, eða önnur því um lík búnaðarmálefni.

Jeg vildi varpa fram þessari athugasemd áður en frumvarpið færi út úr deildinni, en það vona jeg að því lánist, þrátt fyrir annmarka þá, sem sumum virðist vera á því.