15.08.1914
Efri deild: 40. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 90 í B-deild Alþingistíðinda. (1390)

120. mál, stjórnarskrá

Framsögum. (Steingrímur Jónsson):

Jeg gjöri ráð fyrir, og leyfi mjer að skjóta því til hv. forseta, að í raun og veru verður við þessa umræðu talað í einu um þetta mál og 1. mál á dagskrá (till. til þingsál. um uppburð sjermála Íslands fyrir konungi í ríkisráði Dana, þgskj. 489, sbr. 493), því þau verða tæplega aðskilin.

Allir nefndarmennirnir voru sammála um það, að ráða deildinni til að samþykkja stjórnarskrárfrv. óbreytt.

Væntanlega er það í samræmi við skoðun allra þingmanna, og nokkrar líkur til að það sje vilji allrar þjóðarinnar. Jeg finn ekki ástæðu til nú við þessa umræðu og svo seint á þingi, að minnast á þær rjettarbætur, sem unnist hafa, ef frv. nær fram að ganga.

Frumvarpið er kunnugt bæði þingmönnum og þjóðinni, þar sem það hefir verið til meðferðar síðan 1911 og kunnugt frá þinginu 1913; finn jeg því ekki ástæðu til að fjölyrða um það frekar.

Nefndin ræður til að samþykkja frv. í þeirri von, að það megi verða til gagns og blessunar í framtíðinni.

En nefndarmenn voru enn fremur sammála um að jafnframt stjórnarskrárbreytingunni væri rjett að samþykkja yfirlýsingu, sem hefði að innihalda skilning á vissu atriði í stjórnarskránni, uppburði sjermálanna. Nefndarmenn voru einnig sammála um aðalinnihald þessa fyrirvara, að hann væri ákveðin yfirlýsing um skilning vorn á uppburði sjermálanna fyrir konungi, og það væri algjörlega íslenskt sjermál.

Minni hluti nefndarinnar — og jeg telst til hans — leit þó svo á, að í raun og veru væri fyrirvarinn óþarfur, það spursmál væri svo vafalaust, eins og hjer væri komið, að þetta væri sjermál. Þar um þyrfti engan fyrirvara, þegar svo er fyrirmælt í stjórnarskránni, að konungur sjálfur ákveði hvar sjermálin skuli borin upp, þá sje það gjört með undirskrift Íslandsráðherra eins; öðruvísi getur það ekki skilist.

Af því leiðir að sjálfsögðu það, að þeim konungsúrskurði, sem ákveður fyrirkomulagið á uppburði sjermálanna verður aðeins breytt með öðrum konungsúrskurði með undirskrift Íslandsráðherra eins, og á engan annan hátt.

Engu síður leit minni hlutinn svo á, að ekkert væri á móti því, að gefa út þessa yfirlýsingu og engin ókurteisi að láta fyrirvarann fylgja stjórnarskránni, og eftir alt þetta mikla umtal, sem orðið hefir um þetta mál, getur það að vorri hyggju verið heppilegt, að álit Alþingis um þetta yrði kunnugt hjer og erlendis.

Meiri hlutinn lítur svo á, að yfirleitt sje beinlínis þörf á fyrirvaranum og hann sje nauðsynleg trygging fyrir þjóðina.

Jeg skal og taka það enn fram, að þessi var í raun og veru skoðun okkar allra, þótt við ekki værum sammála um orðalagið á þessum fyrirvara. Minni hlutinn vildi hafa yfirlýsinguna sem stytsta, sem mest blátt áfram, ljetta og auðskilda og undir engum kringumstæðum tvíræða.

Þess vegna höfum við komið með breytingu á orðalagi þingsályktunartillögu neðri deildar, sem meiri hlutinn ræður deildinni til að samþykkja. Í fyrirvara neðri deildar er að minsta kosti eitt orð, sem hugsanlegt væri að ekki yrði ósaknæmt gagnvart því, að stjórnarskrárfrv. næði fram að ganga. Það er orðið „áskilur“, sem jeg fyrir mitt leyti skil ekki, hvað meint er með, og álít jafnvel ekki með öllu ósaknæmt. En jeg hefi þó ekki á móti því ef að hv. ráðherra hyggur að það fæli ekki konung frá að samþykkja stjórnarskrána, og væri kærkomin yfrlýsing hans um það.

Ástæður minni hlutans fyrir breytingartillögunni eru þær, að hann álítur sitt orðalag betra og heppilegra fyrir málið. Jeg hefi mint á þetta, af því að ómögulegt er að skilja þessi mál að.