20.07.1914
Efri deild: 13. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 107 í B-deild Alþingistíðinda. (1417)

38. mál, bæjarstjórn í kaupstaðnum Reykjavík

Hákon Kristófersson Hv. 2. þm. Skagf£ (J. B.) hefir að mestu svarað hv. 3. kgk. (Stgr. J.) svo að jeg get verið mjög stuttorður að þessu sinni. Hv. 3. kgk. (Stgr. J.) þótti jeg hafa tekið of sterklega til orða, þar sem jeg sagði, að það mundu hafa verið partiskar ástæður, sem orðið hefðu málinu að falli í fyrra. Ummæli mín studdust við það, að því var slegið fram hjer í deildinni í fyrra, að hjer væri aðeins að ræða um vilja einstakra manna og að frv. væri komið fram fyrir undirróður þeirra, en þetta væri enginn raunverulegur vilji bæjarbúa. (Steingrímur Jónsson:

Þetta mun ekki hafa komið fram í deildinni). Umræðurnar sýna að svo var, ef þær hafa verið rjett skrifaðar. Hv. þm. (Stgr. J.) sagði, að pólitík ætti ekki að komast að við borgarstjórakosningu. Satt er það, að æskilegast væri, að slíkt kæmi ekki fyrir. En mundi það vera staðleysa að segja, að reynt hafi verið að hafa slík áhrif undir því fyrirkomulagi, sem nú er? Jeg fæ ekki heldur sjeð, að pólitík geti fremur smeygt sjer inn, þótt allir kjósendur kjósi borgarstjórann, en þótt bæjarstjórnin sje ein um það. Við þá kosningu mundu þó að líkindum heildarhagsmunir bæjarins verða þyngstir á metunum, hverjir sem kjósa, og ráða meiru en vilji einstakra manna.

Meðal annars, sem á síðasta þingi var talið máli þessu til foráttu, var það, að enginn mundi fást til að verða borgarstjóri, ef hann ætti kosningu sína undir öllum kjósendum. Reynslan hefir víst sýnt það, að borgarstjórastaðan þykir allgirnileg, og ekki hægt að sýna með miklum rökum, að svo mundi ekki verða framvegis, þótt breytingin kæmist á, og ætti sá ótti því ekki að þurfa að vera þrepskjöldur á vegi frv. á þessu þingi. Eigi fæ jeg heldur sjeð, að það varpi minstu rýrð á bæjarstjórnina, þótt borgarstjóravalið sje tekið frá henni og fengið öllum kjósendum. Það er gjört af því að okkur finst eðlilegast að allir fái að njóta kosningarrjettar síns, en ekki af neinu vantrausti á bæjarstjórninni.

Þótt nú svona færi, að reynslan sýndi, að einhverntíma yrði misferli á borgarstjórakosningu almennings, þá er það engin sönnun þess, að breytingin hafi verið til verra; fyrst þyrfti að sýna það og sanna, að hún hefði ekki getað mishepnast í höndum þessara 15 bæjarstjórnarmanna. Það eru jafnvel meiri líkindi til, að borgarstjóræfni og fylgifiskar þess gætu haft áhrif á bæjarstjórnina heldur en á fjöldann; það er þó altaf hægra að vinna sjer atkvæðafylgi 7–8 manna en að afla þess hjá hundruðum manna, svo að frá því sjónarmiði er frv. beinlínis til bóta.