29.07.1914
Efri deild: 21. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 131 í B-deild Alþingistíðinda. (1439)

4. mál, mæling og skrásetning lóða

Framsögum. (Guðmundur Björnsson):

Jeg þarf ekki að vera margorður um þetta mál fyrir nefndarinnar hönd. Það áhrærir eingöngu Reykjavík, og jeg vona, að hv. d. taki orð nefndarinnar trúanleg, að hjer sje farið fram á nauðsynlega rjettarbót fyrir Reykjavíkurbæ. Þetta er álit nefndarinnar hjer, og að sömu niðurstöðu hefir hv. Nd. komist. Þær brtt., sem nefndin kemur með, raska ekki tilgangi nje meginefni frv., heldur miða eingöngu að því, að gjöra frv. ljósara og ótvíræðara. Nefndin hefir gjört brtt. sínar í samráði við þá hv. Nd.-menn, sem næst standa þessu máli.

Það er eitt atriði í þessu frv., sem vert er að vekja sjerstaka athygli á, því að þótt það komi Reykjavík einni við, þá er vert fyrir alla hv. þm. að hafa það í huga, hvort slík ákvæði mundu ekki geta komið sjer vel annarsstaðar. Jeg á við tillöguna um það, að merkjadómur skuli ganga fram jafnt fyrir því, þótt einn eða fleiri aðiljar sæki ekki merkjadómþing, enda þótt þeim hafi verið löglega til stefnt. Þetta álítur nefndin hjer í deild nauðsynlegt, og sömuleiðis þeir, sem mest hafa um málið fjallað í hv. Nd., því að ella gæti orðið bagalegur dráttur á því, að málið yrði útkljáð,. en af því mundi aftur leiða margskonar óþægileg óvissa og erfiðleikar fyrir þá, sem vilja fá lán út á eignina. Fyrir bæjarstjórnina mundi og drátturinn stundum vera til mikils óhagræðis. Elsti og reyndasti maðurinn í nefndinni, hv. 2. kgk. (E. Br.), gat þess, að full þörf væri á þessu ákvæði, þar sem sum landaþrætumál hefðu verið á döfinni árum saman, jafnvel heilan áratug, áður en þau yrðu útkljáð. Munu ýmsum hv. dm. kunnug svipuð dæmi. En sje. drátturinn bagalegur til sveita, þá er hann það þó miklu fremur hjer. Þetta, sem jeg hefi minst á, er helsta nýmælið í þessari lagasetningu, og því vildi jeg leiða athygli hv. d. að því.

Að endingu vona jeg, að málið, eins og það kemur frá nefndinni, fái góðar undirtektir hv. d., því jeg þykist geta fullyrt, að vel sje frá því gengið.