29.07.1914
Efri deild: 21. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 133 í B-deild Alþingistíðinda. (1441)

4. mál, mæling og skrásetning lóða

Framsögum. (Guðmundur Björnsson):

Jeg skal svara hv. 1. kgk. (J. H.) og leyfa mjer að skýra frá af hvaða aðalástæðu frv. þetta er komið á gang. Það er rjett, sem hv. 1. kgk. (J. H.) gat um, að bæjarstjórnin hefir látið mæla upp bæinn og gjöra uppdrátt af honum, og satt er það, að landmælingamennirnir dönsku hafa líka mælt bæinn. En þeim mælingum var alt öðru vísi háttað en hjer er gjört ráð fyrir. Bæjarstjórnin ljet mæla bæinn í því skyni að fá vitneskju um allar viðáttur og halla í bænum; sú mæling átti að koma að notum við vegagjörðir í bænum, holræsagjörð, vatnsveitu og gasveitu. Þetta er alt annað en hjer er ráðgjört. Það eru ekki til neinar mælingar á öllum lóðum í Reykjavík, hverri um sig; þær hafa aldrei verið gjörðar. Hjer er því eingöngu á það að líta, hvort nauðsynlegt sje að mæla og skrásetja allar lóðir í lögsagnarumdæmi Reykjavíkur, til þess að koma í veg fyrir deilur og drátt á ýmsum nauðsynjaverkum. Því neitar víst enginn, að landamerkjalögin hafi verið harla nauðsynleg fyrir sveitamenn, og betur hefði farið um margt, ef þau hefðu verið fyr sett en gjört var. Hjer í bæ eru glögg merki milli lóða engu síður nauðsynleg en landamerki milli jarða í sveit, og vafalaust enn nauðsynlegri, ef á alt er litið.

Þótt lóðir hjer sjeu litlar á við jarðir í sveit, þá eru þær svo margfalt verðmætari, að smálóð hjer getur verið í hærra verði en stór jörð í sveit, og örlítil ræma dýrari en stórt þrætuland til sveita. Þess vegna er það svo bráðnauðsynlegt, að full vissa sje um öll lóðamörk hjer í bænum. Hv. 1. kgk. (J. H.) sagði, að þrætur á milli lóðareiganda hjer í bæ væru mjög sjaldgæfar. En það er eftir að vita, hvað þær þrætur verða margar, þegar að því kemur að gjöra út um takmörk á lóðum fyrir fult og alt. Og það veit jeg, að þessar þrætur hafa ekki verið svo fátíðar. Jeg hefi setið 6 ár í bæjarstjórn, svo að mjer er þetta fullkunnugt. Það er alltítt, að deilur rísa milli bæjarins og einstakra manna um það, hvort þeir eða bærinn eigi þessa og þessa lóðarskák. Og það hefir oft reynst mjög erfitt að skera úr því: þess vegna kemur merkjadómur í góðar þarfir.

Þá er þriðja ástæðan fyrir þessu frv., og hún er ekki ljettust á vogunum. Hún er þessi : Allir, sem hafa kynst bæjarmálum, finna glögt til þeirra miklu vandræða, sem af því leiða, að einstakir menn hafa iðulega bútað niður lóðir sínar í 2, 3 eða fleiri hluta og selt hinum og þessum, án þess að bæjarstjórnin hafi fengið nokkra vitneskju um það, fyr en seint og síðar meir. Þessi skifting lóðanna hefir oft valdið fádæma erfiðleikum fyrir bæjarstjórnina, þegar til hefir staðið að gjöra nýjar götur eða torg. Nú er þess líka krafist, að hverju húsi fylgi svo og svo mikil óbygð lóð; það er því ljóst, að þetta má ekki lengur svo til ganga. Þetta er margflókið mál og torskilið þeim, sem ókunnugir eru hjer í bænum.

Í þessu frumvarpi er ekki tekið fyrir það, að einstakir menn megi selja hluta af lóðum sínum, heldur eingöngu reistar skorður við því, að bæjarfjelagið bíði halla, og þess vegna bannað að selja lóðir eða hluta af þeim án samþykkis byggingarnefndar. Það samþykki fæst vitanlega tafarlaust, ef salan er ekki bænum til miska. Þetta er höfuðástæðan.

Jeg vona nú, að hv. deild sjái það, að hjer er um góða lagabót að ræða, og leyfi frv. að halda leiðar sinnar.