29.07.1914
Efri deild: 21. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 142 í B-deild Alþingistíðinda. (1459)

16. mál, beitutekja

Karl Finnbogason :

Jeg á hjer litla breytingartillögu á þgskj. 251, og býst jeg við að hún muni þykja óþörf, en af því að mjer virðist ekki svo, þá vil jeg mæla með henni nokkrum orðum.

Jeg tel það kost á öllum lögum, að þau sjeu svo skýr og ótvíræð sem unt er. Að þau sjeu skýr og skiljanleg öllum mönnum, ætti að vera trygging fyrir því, að þeim verði hlýtt betur og þau síður rangt skýrð, eða kring um þau farið.

Breytingartillaga mín fer fram á að orðið „manns“ sje felt aftan af fyrstu setningunni í 3. gr. frumvarpsins og upphaf greinarinnar hljóðar þá svona : „Nú tekur maður skelfisk í netlögum annars“. Jeg legg til að þessi breyting verði gjörð vegna þess, að mjer finst orðið „manns“ vera notað hjer í óeðlilegri merkingu, því að það getur verið, að t. d. bæjarfjelag eigi landið, og verður þá orðið „maður“ að þýða „bæjarfjelag“.

Þýðing greinarinnar er sama þó að orðið „manns“ falli burtu, og jeg skal leyfa mjer að benda á, að sama orðalag, sem þá verður á greininni, hefir verið notað bæði í gömlu máli og nýju. Jeg vil leyfa mjer að taka tvö dæmi. Annað þeirra er úr Hávamálum. Þar stendur svo á einum stað: „At augabragði skalat maður annats hafa“. Hjer er sagt „annan“, en ekki annan mann.

Hitt dæmið, sem jeg skal nefna, er úr nýjum lögum.

Í girðingalögunum, sem nú eru til umræðu, er farið fram á, að 8. grein hljóði svona : „Nú liggja tún eða engjar tveggja eða fleiri manna saman, eða tún eða engjar liggja að beitilandi annara“.

Hjer er „annara“ haft í merkingunni „annara manna“ eða „annara jarða“.

Þetta bendi jeg á til að sýna að breytingartillaga mín er í alla staði rjettmæt. Þeir sem kæra sig um að lagamál og mælt mál sje eitt og hið sama, geta því rólegir greitt henni atkvæði. Hinir, sem vilja, að lagamál sje annað en mælt mál, svo auðveldara sje að flækja það og firra viti, geta sæmt sig á því að fella hana, ef þeir vilja.