29.07.1914
Efri deild: 21. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 143 í B-deild Alþingistíðinda. (1460)

16. mál, beitutekja

Framsm. (Sigurður Stefánsson):

Jeg álít að brtt. á þgskj. 251 sýni ekki annað en hvað tillögumanni þyki gaman að gjöra breytingartillögur. Jeg tók það fram við 2. umr. málsins að „maður“ þýddi sama hjer og „juridisk persóna“. Ef þessi brtt. verður samþykt, þá verður orðalag greinarinnar óskýrara en ekki skýrara en það er nú, og auk þess er setningin óíslenskuleg. Háttv. tillögumaður virtist ekki gjöra ráð fyrir, að það gæti verið annað en bæjarfjelag, sem ætti landið, en það getur líka verið, að margir menn eigi landið í sameiningu. Og hvað er undirskilið við þetta „annars“? Það getur ekki verið annað en „annars manns“. Það liggur í augum uppi, að það getur ekki verið annað.

Þá vitnaði háttv. ræðumaður í Hávamál til stuðning tillögu sinni. Það er satt, það er góð íslenska á Hávamálum, en að fara að stæla lagamálið eftir þeim, held jeg að þýði ekki neitt. Jeg skal sömuleiðis leyfa mjer að vitna í einn málshátt mínu máli til stuðnings. Það er málshátturinn: „Maður er manns gaman“. Ætli það þætti ekki kynlegt ef sagt væri: „Maður er annars gaman“. Og þó að það kæmi fyrir að þessu orði sje slept, þá sannar það ekkert, því að það getur verið í öðru sambandi en hjer er um að ræða. Þá vil jeg minnast á brtt. háttv. þm. Barð. (H. Kr.). Sú tillaga fer fram á verulega breytingu, og gæti því orðið umræðuefni. En því miður hefi jeg ekki getað borið mig saman við nefndina um hana, með því að jeg sá hana ekki fyr en hjer á fundinum. Og jeg verð að lýsa því yfir, að jeg fyrir mitt leyti treysti mjer ekki til að greiða atkvæði með henni. Hjer er um eldgamalt lagaákvæði að ræða, sem jeg til varhugavert að fella úr gildi.